Select Page

22.11.2017 / Á þessu ári eru 110 ár liðin síðan Alþingi Íslendinga samþykkti lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Það er almennur skilningur að þessi lagasetning hafi í senn bjargað þeim skógarleifum sem eftir voru á landinu og stuðlað að því að ráðist var gegn sandfoki og landeyðingu. Segja má að þessi lög hafi verið fyrsta skrefið í átt til umhverfisverndar og bættrar umgengni við gróður landsins.

Á sumarþinginu 1907 lagði landstjórnin fram: „Frumvarp til laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“. Þetta var eitt af hjartans málum Hannesar Haf­stein ráðherra. Frumvarpið var samþykkt samhljóða miðvikudaginn 11. september. Friðrik VIII. Danakonungur staðfesti lögin svo 22. nóvember og þau tóku gildi 1. janúar 1908. Þar með var undanfari Landgræðslu ríkisins tekinn til starfa. Var ýmist talað um sandgræðsluna eða Sandgræðsluna fyrstu árin.

Lögin voru stutt, aðeins fimm greinar, og þau einkennast fremur af áhuga Íslendinga á þessum árum á skógrækt en bjargföstum vilja að hefta sandfok. Með þeim voru skógrækt og sandgræðsla sett undir sömu yfirstjórn og er sérstaklega tekið fram í fyrstu grein laganna að svo skuli vera. Í annarri grein er kveðið á um að skipa skuli forstjóra fyrir skógræktarmál landsins, skógræktarstjóra, „og skal hann einnig hafa á hendi forstjórn opinberra ráðstafana, sem gjörðar verða til þess að varna sandfoki.“ Í þriðju grein er boðað að ráðherra skipi menntaða skógarverði eftir þörfum sem eiga að aðstoða skógræktarstjóra og sjá um skógræktarjarðir og trjáræktunarsvæði í eigu hins opinbera. Svo endar greinin með þessum orðum: „Fela má og skógarvörðum athugun og skrásetning sandfokssvæða og eftirlit með framkvæmd sandfoksráðstafana, er gjörðar kunna að verða.“

Þetta er allt og sumt sem segir um sandgræðsluna í lögunum en um nán­ari útfærslu á störfum og starfssviði skógrækt­arstjóra og skógarvarða er vísað í reglugerð. Agner Francisco Kofoed­ Hansen skógræktarstjóri var fyrsti yfirmaður sand­græðslumála á Íslandi. Hann þokaði ýmsum málum áleiðis og skrifaði meðal annars eina fyrstu vísindagrein sem skrifuð hefur verið um íslenskan jarðveg.

Sú var tíðin að sandfok ógnaði byggð víða á landinu. Með samstilltu átaki tókst hins vegar að bægja þeirri ógn frá – og það hefur ráðið miklu um jákvæð viðhorf fólks til landgræðslustarfsins. Baráttan við sandfokið og gróðureyðinguna var þó alls ekki auðunnin, enda er landgræðsla í eðli sínu langtímaverk og þolinmæðisvinna. Því er okkur nútímafólki bæði lærdómsríkt og hollt að kynna okkur hverju landgræðslufólk fyrri tíðar fékk áorkað, þrátt fyrir að skilyrðin væru oft býsna erfið og vantrú almennings mikil.

Setning laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands var grunnur þess mikla starfs sem Landgræðslan og Skógræktin hafa innt af hendi í rúma öld. Óhætt er að segja að þau markmið sem Íslandsráðherrann, Hannes Hafstein, lagði upp með hafi gengið eftir, þ.e.: „að gjöra landið betra, vistlegra og fegurra fyrir börn vor og þeirra börn“.

Nýjar áskoranir hafa séð dagsins ljós; áskoranir sem forfeður okkar gátu ekki séð fyrir en ljóst má vera að mikilvægi skógræktar og landgræðslu er ekki minna nú um stundir en þegar umrædd lög voru sett fyrir 110 árum.

Skip to content