Select Page

16. desember 2015  | Frú Vigdís Finnbogadóttir og fleiri afhentu fyrr í vikunni Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra yfirlýsingu þar sem hann er hvattur til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá. Yfirlýsing var samþykkt og undirrituð af rösklega 20 þátttakendum á málþingi um umhverfismál “Af jörðu ertu kominn…” sem haldið var í Skálholti 10. nóvember. Í hópnum eru auk frú Vigdísar og frú Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands, náttúruvísindamenn, bændur, prestar, heimspekingur, þingmaður og fólk úr ferðaþjónustu svo að nokkur séu nefnt. Í hvatningunni er fjallað um að “ Staða umhverfismála á heimsvísu kallar á breytt hugarfar og þátttöku allra í að varna óafturkræfum breytingum á loftslagi. Þær ógna lífsskilyrðum fólks nú þegar, sem og kynslóða framtíðarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.”

Því þurfi strax að breyta hugarfari næstu kynslóðar til hins betra. “Þess vegna er stóraukin fræðsla meðal grunn- og framhaldsskólakennara um vistkerfi jarðar lykilatriði enda mótar fræðsla þeirra kynslóðir framtíðarinnar”. Þá segir í yfirlýsingunni: “Einnig viljum við benda á þá staðreynd að velferð samfélaga byggir á sjálfbærri auðlindanýtingu, sanngirni og lífstíl þar sem allir njóta góðs af sameiginlegum arði.”
Þá er mennta- og menningarmálaráðherra hvattur til að nota það tilefni sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París 2015 gefur, til að styrkja og efla verkefni á sviði umhverfismála. Þar er nefnt að “auka framboð af námskeiðum sem bæta þekkingu kennara á vistkerfum jarðar og gera þá færari í að vinna meðsjálfbærni og umhverfisvitund sem grunnstoðir uppfræðslu, fléttaðar inn í aðar námsgreinar skólakerfisins.”

Yfirlýsingin fylgir hér á eftir auk lista yfir þá sem undirrituðu hana:
Við undirrituð þátttakendur á málþingi um umhverfismál, “Af jörðu ertu kominn…” sem haldið var í Skálholti 10. nóvember s.l. hvetjum mennta- og menningarmálaráðherra til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá.
Staða umhverfismála á heimsvísu kallar á breytt hugarfar og þátttöku allra í að varna óafturkræfum breytingum á loftslagi. Þær ógna lífsskilyrðum fólks nú þegar, sem og kynslóða framtíðarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.
Við öll berum ábyrgð á því að nýting náttúruauðlinda verði með sjálfbærum hætti. Sjálfbærni næst aðeins með aukinni heildrænni þekkingu á vistkerfum jarðar og hvernig öll starfsemi þeirra er órjúfanlega tengd innbyrðis.
Þá þurfum við strax að byrja að breyta hugarfari næstu kynslóðar til hins betra. Aukin þekking og skilningur kennara á vistkerfum og hringrásum lífsins er undirstaða þess að þeir geti miðlað lærdómnum áfram og byggt upp sterka umhverfisvitund og vistlæsi á meðal æsku landsins.
Þess vegna er stóraukin fræðsla meðal grunn- og framhaldsskólakennara um vistkerfi jarðar lykilatriði enda mótar fræðsla þeirra kynslóðir framtíðarinnar. Við viljum í því samhengi benda sérstaklega á mikilvægi jarðvegs- og vatnsverndar og þátt líffræðilegs fjölbreytileika. Einnig viljum við benda á þá staðreynd að velferð samfélaga byggir á sjálfbærri auðlindanýtingu, sanngirni og lífstíl þar sem allir njóta góðs af sameiginlegum arði.
Við hvetjum menntamálaráðherra að nota það tilefni sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París 2015 gefur, til að styrkja og efla verkefni á þessu sviði. Ennfremur að auka framboð af námskeiðum sem bæta þekkingu kennara á vistkerfum jarðar og gera þá færari í að vinna meðsjálfbærni og umhverfisvitund sem grunnstoðir uppfræðslu, fléttaðar inn í aðar námsgreinar skólakerfisins.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, f.v. forseti Íslands
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
Andrés Arnalds, staðgengill landgræðslustjóra
Áróra Bryndís Ásgeirsdóttir, landfræðingur
Sr. Axel Árnason, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu
Sr.Bernharður Guðmundsson, f.v. rektor Skálholtsskóla
Björn Erlingsson, hafeðlisfræðingur
Guðrún Andrésdóttir, framkvæmdastjóri Náttúruferða
Sr. Halldór Reynisson, verkefnisstjóri Skálholti
Sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur Fellsmúla
Dr. Hlynur Óskarsson, vistfræðingur hjá Landbúnaðarháskólanum
Dr. Jón Ásgeir Kalmansson, heimspekingur
Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor HÍ
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup Skálholti
Kristófer Tómasson, sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Dr. Lára Jóhannsdóttir, lektor HÍ
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, Steinsholti
Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor HÍ
Ellisif Tinna Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður
Þorfinnur Þórarinsson, bóndi Spóastöðum
Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur
Þröstur Ólafsson, formaður Auðlindar, náttúrusjóðs

Skip to content