Select Page

13. júlí 2015 14:25. | Á dögunum heimsótti rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna, David Malone, Landgræðsluskólann og aðra skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) til að kynna sér starfsemi skóla HSÞ á Íslandi. Landgræðsluskólinn tók á móti Malone í húsakynnum Landgræðslu ríkisins þar sem nemar skólans dvelja í sumar. Forstöðumaður Landgræðsluskólans sagði frá starfsemi Landgræðsluskólans auk þess sem rektor LbhÍ og Landgræðslustjóri sögðu frá LbhÍ og Lr sem standa saman að Landgræðsluskólanum og rekstri hans. Jafnframt sögðu nemar Landgræðsluskólans frá áskorunum er tengjast landnýtingu og endurheimt í sínum heimalöndum og hvernig þau telja að námið við Landgræðsluskólann muni nýtast þeim í starfi þegar heim er komið. Í Gunnarsholti var farið um staðinn og sagt frá sögu landeyðingar á svæðinu og sýnt hvernig hefur tekist að græða landið.

Í heimsókn sinni fékk rektor HSÞ tækifæri til að heimsækja þær íslensku stofnanir sem hýsa skóla HSÞ auk þess að heimsækja alla fjóra skólana: Landgræðsluskólann, Jarðhitaskólann, Sjávarútvegsskólann og Jafnréttisskólann. Malone átti einnig fund með utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, en skólar HSÞ á Íslandi eru allir hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands sem er á sviði utanríkisráðuneytisins. Einnig átti Malone fund með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni og fyrrverandi forseta Vigdísi Finnbogadóttur.

Í fylgd með Malone var vararektor HSÞ, Max Bond, en þeir hafa báðir aðsetur í Tókýó þar sem Háskóli SÞ hefur aðalstöðvar. Háskóli SÞ hóf störf árið 1975 til að styrkja alþjóðlegt samstarf á milli SÞ, háskóla og annarra sem stunda vísindarannsóknir, með sérstaka áherslu á þróunarríkin. Malone varð rektor HSÞ árið 2013.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá gestina ásamt nemendum og starfsmönnum Landgræðsluskólans auk starfsmanna Landgræðslunnar. Myndin var tekin við Sofnhúsið í Sagnagarði í Gunnarsholti. Þá kemur mynd af David Malone og Sveini Runólfssyni, landgræðslustjóra, sem afhenti David Malone bókina Healing the Land eftir Roger Crofts. Neðsta myndin er af þeim Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, forstöðumanni Landgræðsluskólans og David Malone, en Hafdís Hanna gaf honum einnig bók til minningar um heimsóknina.

Heimasíða skólans: http://www.unulrt.is/

Skip to content