12.3.18 / Landbótasjóður Landgræðslunnar úthlutar árlega styrkjum til bænda og annarra umráðahafa lands til verkefna er snúa að stöðvun jarðvegsrofs, endurheimt gróðurs og jarðvegs. Árið 2017 bárust 90 umsóknir í sjóðinn en styrkur var veittur til 87 verkefna. Landbótasjóður var settur á fót árið 2003.
Á vegum sjóðsins var úthlutað 64,4 m.kr. í formi beinna styrkja auk 9,3 m.kr. í formi fræs sem var afhent styrkþegum. Heildarstyrkur reyndist því vera 74,8 m.kr. Landgræðslan, Umhverfisráðuneytið og Framleiðnisjóður Landbúnaðarins lögðu sjóðnum til fjármagn.
Ef verkefni eru umreiknuð í flatamál kemur í ljós að þau jukust verulega á árunum 2016 og 2017 samanborið við árin á undan, en framlög í sjóðinn hækkuðu á liðnu ári. Á árinu 2017 var unnið á 6.998 hekturum sem er það mesta frá því að sjóðurinn tók til starfa. Á síðasta ári dreifðu styrkþegar tæplega 1000 heyrúllum á land sitt og gróðursettu um 32.000 trjáplöntur.
Með Landbótasjóði er opin leið fyrir landnotendur að stunda landgræðslustörf, auka þekkingu sína og reynslu, auk þess sem ábyrgð hver og eins á varðveislu og eflingu landkosta eykst. Árlega er auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og við ákvörðun um styrkveitingu er einkum lögð áhersla á eftirfarandi: Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar, endurheimt gróðurs og jarðvegs, sjálfbæra landnýtingu og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.