29. maí 2015 15:39. | Nýlega kom út grein eftir Önnu Maríu Ágústsdóttur, jarðfræðing hjá Landgræðslu Íslands, um vistheimt og viðnámsþrótt vistkerfa gegn náttúruvá í tímaritinu Natural Hazards. Fjallar hún um hvernig efla megi náttúrulegar varnir gegn hamförum og auka vitund manna um möguleika mótvægisaðgerða gegn náttúruvá. Þróttmikil vistkerfi standast betur áföll af völdum náttúruvár, svo sem eldfjallaösku. Vistkerfin geta einnig hindrað frekari skaða eftir að eldgosi lýkur, með því að draga úr endurflutningi öskunnar í öskustormum. Áföll, líkt og nýleg eldgos, kalla á að endurskoðun hvað má fara betur.
Fjallað er um að samþætting aðgerða er mikilvægt vogarafl til að ná fram betri árangri. Má þar nefna aðgerðir gegn náttúruvá og ýmis önnur markmið, t.d. um sjálfbærni og uppbyggingu í dreifðum byggðum landsins og fjölmargar áætlanir sem tengjast landnotkun sem mikilvægt er að móta til langs tíma. Landnýting er lykilatriði í þessu sambandi og brýnt er að mannlegar aðgerðir auki ekki áhættu og þar með líkur á tjóni samfélagsins við náttúruvá. Illa farið land, sem er rofið og með litla gróðurþekju, þolir ekki viðbótarálag og veitir enga vörn gegn öskufoki. Þanþol slíkra vistkerfi er lítið og þau eru mun lengur að ná sér eftir áföll.
Greinin undirstrikar nauðsyn og mikilvægi þess að græða upp landið og byggja upp þol lífauðlinda gegn áföllum og styrkja þannig sjálfbæran grundvöll lífhagkerfisins til langs tíma. Sterkt samfélag með sterka innviði, gott innra skipulag og sterkan efnahag hefur meiri getu og þol til að takast á við áföll í náttúrunni.
Aðgangur að greininni er opinn öllum og hægt að nálgast hana hér.