Í viðtali í síðasta tölublaði Bændablaðsins er rætt við Svein Runólfsson, landgræðslustjóra. Þar segir Sveinn að alltof víða hafi eyðingin enn yfirhöndina. Hann nefnir í þessu sambandi stór landsvæði við hálendisbrúnina og á hálendi landsins.
„Það sem mér gremst er að ekki skuli hafa náðst meiri árangur í gróðurverndarmálum. Það er enn langt í land að við getum horft kinnroðalaust framan í afkomendur okkar og sagt að við séum að nýta beitilöndin með sjálfbærum hætti. Við getum engum öðrum um kennt en okkur sjálfum sem förum með forræði gróðurverndarmála og fræðslu til bænda sem eiga eða fara með beitarrétt á nær öllu landinu. Við tölum öll um sömu hlutina og enginn vill skaða land, en það er himinn og haf á milli skilnings bænda annars vegar á hugtökum er lúta að sjálfbærri landnýtingu og hins vegar vistfræðinga og annarra fræðimanna á gæðum beitilanda.”
− En hvað þá um skilning stjórnvalda og hagsmunaaðila á nauðsyn landgræðslu?
„Stjórnvöld hafa alltaf sýnt landgræðslustarfinu skilning og velvilja, en misjafnlega mikinn þó. Hvernig þetta skilaði sér í auknum fjárveitingum og umbótum var oft háð því hversu hart stjórnvöld voru keyrð af forsvars- og hagsmunaaðilum bænda. Ég segi hér forsvarsog hagsmunaaðilum bænda því ég geri skýran greinarmun á þeim og almennum bændum. Langflestir bændur hafa haft ríkari skilning á velferð og verndun landsins en forsvarsmenn þeirra. Þetta er ekki auðskýranlegt en forysta bænda hefur æði oft verið afar þröngsýn á raunverulega gróðurvernd,” segir Sveinn og trúir því að þetta sé að breytast. „Já, núverandi stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur sýnt gróðurvernd og sjálfbærri landnýtingu gleðilegan og jákvæðan skilning. Almenn þekking á sviði landgræðslu hefur aukist og æ fleiri hafa áttað sig á að við verðum að horfa til hagsmuna komandi kynslóða, ekki bara að tala um það.”
Ekki keppikefli að græða allt landið
Aðspurður segir Sveinn að það vanti afskaplega mikið upp á að Íslendingar hafi greitt skuldina við landið, en hann tekur fram að vissulega hafi landsmenn lækkað skuldastabbann með myndarlegum greiðslum. Sveinn segir líka að það sé ekki endilega keppikefli að græða allt landið. „Við eigum að leggja áherslu á að græða aftur upp það land sem við höfum fordjarfað með búsetu okkar í aldanna rás. En þær auðnir sem náttúruöflin hafa sjálf skapað, eins og t.d. við Veiðivötn og á Skeiðarársandi, eigum við ekki að græða upp, nema þá þar sem samgöngur krefjast þess eins og á Mýrdalssandi. Enn fremur verður þessi moldríka þjóð að komast á það menningarstig að vernda moldina og tryggja að öll beitarnýting verði með sjálfbærum hætti. Skyndilega hefur svo hvolfst yfir okkur nýr hernaður gegn landinu og náttúrunni og það er ágangur ferðamanna. Þar voru stjórnvöld tekin fullkomlega í bólinu og því miður virðast þau enn þá vera að mestu ráðþrota hvernig við skuli brugðist.”
Viðtalið við Svein Runólfsson er á bls. 32 og 33. Smella hér.