Select Page

10. febrúar 2015  | Á dögunum kom út ársskýrsla Gæðastýringar í hrossarækt. Nú eru liðin 15 ár síðan Landgræðslan tók að sér að annast landnýtingarþátt gæðastýringar í hrossarækt. Verkefnið snýst um að þeir hrossabændur sem þess óska, fái staðfest með formlegum hætti að landnýting þeirra sé með sjálfbærum hætti, enda standist meðferð þeirra á beitarlandi sett viðmið. Settar voru ákveðnar vinnureglur og viðmið sem notuð eru við úttektir á beitarlandi. Árið 2014 stóðust 40 hrossabú úttektarkröfur landnýtingarþáttarins.

Tilgangurinn með gæðastýringarkerfi hrossaræktarinnar er m.a. sá að auka fagmennsku í meðferð beitarlands og auka velferð hrossa á viðkomandi búum. Þetta hefur tvímælalaust tekist hvað varðar meðferð lands. Landlæsi bænda á þátttökubúum hefur aukast og meðferð þeirra á beitarlandi batnað. Í ljósi þess væri æskilegt að fjöldi þátttökubúa ykist umtalsvert á næstu árum.

Þó landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar hafi fest sig í sessi þurfa hrossabændur engu að síður að leita frekari tækifæra til að nýta hann sér í hag, bæði til markaðssetningar á hrossum sínum og til að bæta ímynd búgreinarinnar út á við. Hætt er við að fjari smátt og smátt undan gæðastýringarkerfinu, þar með landnýtingarþættinum, ef það er ekki í stöðugri endurskoðun, óþarfa agnúar sniðnir af og leitað sóknarfæra til hagsbóta hrossabændum. Með landnýtingarþáttinn sérstaklega í huga mætti t.d. hugsa sér sérstakt merki þátttökubúa, sem Félag hrossabænda stæði að. Landgræðslan gæti kynnt landnýtingarþáttinn betur á landsvísu og stutt við aðlögunarferli þeirra, sem áhuga hefðu á því að gerast þátttakendur.

Félagslega myndi það styrkja búgreinina mikið, ef hrossabændur tækju afgerandi forystu fyrir íslenskum bændum í landnýtingu og umgengni um land sitt. Til þess hafa þeir alla burði með vaxandi umhverfisvitund.

Í ársskýrslunni eru nokkrar ráðleggingar vegna hrossabeitar. Þar er m.a. fjallað um áburðargjöf á gróið land, tímabundna friðun lands og nauðsyn þess að hlífa viðkvæmu landi við beit. Einnig er fjallað um lengingu gjafatíma, hólfun lands, bætta framræslu og uppgræðslu lands sem er ógróið eða lítt gróið. Þá er þar ábending um fækkun hrossa.

Smella hér til að sjá Ársskýrslu Gæðastýringar í hrossarækt.

Skip to content