20.09.16 / Hvaða hlutverki gegnir jarðvegur? Af hverju skiptir máli að endurheimta jarðveg og gróður á örfoka landi? Hvernig getum við gert það? Og hvaða aðferð gefur bestan árangur á örfoka landi heima hjá okkur? Hvað hefur þetta með loftslagsbreytingar og lífbreytileika að gera?
Þetta eru m.a. spurningar sem ungmenni í fjórum grunnskólum og þremur framhaldsskólum ræða og rannsaka í gegnum Vistheimtarverkefni Landverndar. Þetta verkefni er langtímaverkefni á sviði vistheimtar og umhverfismenntar og er unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins.
Í þessu verkefni taka nemendur m.a. þátt í að setja upp tilraunasvæði í vistheimt á örfoka landi í sínu nærumhverfi þar sem þeir prófa mismunandi aðferðir við endurheimt vistkerfa. Í kjölfarið mæla nemendur árlega gróðurþekju, kanna smádýralíf og ýmsa umhverfisþætti í tilraunareitunum.
Niðurstöður eru ræddar og settar í samhengi við þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag við vernd jarðvegs og vistkerfa. Áhersla er einnig lögð á að nemendur kynni verkefnið utan skólastofunnar svo að þekkingin fari út í nærsamfélagið.
Þann 5. september síðastliðinn lögðu vaskir nemendur í 5. – 7. bekk Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit út fyrstu tilraunareiti skólans ásamt kennurum sínum, Sigrúnu Jónsdóttur og Nanna Þórhallsdóttur, Rannveigu Magnúsdóttur, verkefnisstjóra Vistheimtarverkefnisins hjá Landvernd og starfsmönnum Landgræðslunnar, þeim Daða Lange Friðrikssonar og Guðrúnu Schmidt. Eins og sjá má á myndunum gekk uppsetning tilraunareitanna mjög vel og verður spennandi að fylgjast með framvindu bæði í tilraunareitunum sem og þekkingarsköpun nemendanna í gegnum næstu árin.