4.11.16 / „Eitt af því sem mig langar að gera sem landgræðslustjóri er að auka vitund fólks á fæðuöryggi og á því að við verðum að fara að búa okkur undir þær hraðfara breytingar sem eru í vændum vegna breytinga á veðurfari og hlýnunar loftslagsins. Landbúnaður er þannig grein að það tekur einn til tvo áratugi að breyta kerfinu og því nauðsynlegt að fara að huga að þessum málum strax“, sagði Árni Bragason, landgræðslustjóri, í samtali sem Bændablaðið átti við hann. Árni sagði í viðtalinu að Landgræðslan þurfi að búa sig undir loftslagsbreytingar og aukna akuryrkju í framtíðinni. Hér birtist hluti af viðtalinu við Árna.
Árni segist sjá fyrir sér að Landgræðslan sinni áfram sínu hlutverki við að græða landið en að hún leggi einnig sitt af mörkum til að styðja við auka akuryrkju í landinu og sé jafnvel leiðandi á því sviði.
„Allar spár og loftslagsmódel benda til að lofthiti hækki um að minnsta kosti tvær gráður hér á landi næstu áratugina og þar af leiðandi verður hægt að auka kornrækt gríðarlega í framtíðinni. Víða þar sem áður voru sandar eru tún í dag og þar verða kornakrar í framtíðinni.
Ég vil að möguleikinn á kornrækt verði tekinn inn í myndina þegar við skipuleggjum landgræðslu í framtíðinni og tryggjum að akuryrkja sé eitt af markmiðum uppgræðslunnar. Ég vil líka ýta undir að menn fari að ræða þessi mál innan greinarinnar og skoða þetta sem valkost.
Hækki lofthitinn, eins og spár gera ráð fyrir, verða til aðstæður sem gera okkur kleift að nota allt aðrar plöntur til uppgræðslu en notaðar eru í dag. Fyrir vikið ætti uppgræðslan að verða okkur auðveldari en við verðum líka að vera tilbúin að takast á við verkefnið á nýjan hátt. Þegar ég segi aðrar plöntur á ég ekki við erlendar plöntur heldur önnur afbrigði og tegundir gróðurs og ég sé líka fyrir mér uppgræðslu með það að markmiði að auka akuryrkjuland.
Hlýnuninni mun einnig fylgja nýir plöntusjúkdómar og plágur sem við þurfum að fást við og því er líka nauðsynlegt að vera undirbúin undir það og önnur vandamál koma til með að fylgja auknum hlýindum.
Umræða af þessu tagi er komin vel á veg víða á Norðurlöndunum og ekki seinna vænna að við förum að tala um þessi mál af alvöru hér á landi.“
Árni segir að þrátt fyrir nauðsyn þess að að taka upp umræðu um framtíð landgræðslunnar í landinu séu brýnustu verkefni stofnunarinnar í dag svipuð því og þau hafa verið. „Endurheimta landgæði og hafa tiltækt það efni sem þarf til uppgræðslu eins og fræ.“
Landgræðslan og bændur
Að sögn Árna er langstærstur hluti bænda í landinu að gera mjög góða hluti þegar kemur að landbótum og uppgræðslu lands. „Ég tel að 90% bænda séu að gera góða hluti og með þeim vil ég vinna en ég hef lítinn áhuga á að ganga á eftir eða sýna þeim 10% sem hafa ekki áhuga á landbótum einhvers konar meðvirkni. Ég hef áhuga á samvinnu við þennan stóra meirihluta, því með þeim komum við til með að ná árangri en ekki með því að eyða öllum tímanum í að púkka undir einhverja fáeina skussa.“
Áhugi á erfðaauðlindum hefur aukist gríðarlega
Frá árinu 2010 starfaði Árni sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð. NordGen er 36 ára gömul stofnun og hún heldur utan um erfðaauðlindir í landbúnaði á Norðurlöndum. NordGen er upphaflega genabankinn fyrir landbúnaðarplöntur en seinna var genabanki fyrir húsdýr settur undir sama hatt ásamt ráðgjöf í erfðamálum skógræktar. Eitt af því sem NordGen er ábyrgt fyrir er daglegur rekstur á frægeymslunni á Svalbarða, Svalbard Global Seed Vault.
„Áhugi á erfðaauðlindum hefur aukist gríðarlega undanfarið og á árunum frá 2012 til 2015 tvöfaldaðist eftirspurn eftir erfðaefni úr bankanum. Fræ- og kynbótafyrirtækin og einstaklingar eru einfaldlega farin að undirbúa sig undir framtíðina og þær loftslagsbreytingar sem eru í vændum. Almenningur í Evrópu er orðinn meðvitaðri um gildi líffræðilegrar fjölbreytni og farinn að prófa sig áfram með ræktun á ýmsum tegundum. Vakning af þessu tagi hefur ekki enn náð fótfestu hér á landi en hún á eftir að aukast,“ segir Árni í viðtalinu sem Vilmundur Hansen átti við hann.