23.11.2016 / Mikilvægi vistheimtar (endurheimtar vistkerfa) hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum um allan heim vegna aukins álags á vistkerfi og hnignunar þeirra. Þá hafa alþjóðlegir samningar í umhverfismálum einnig kallað eftir aðgerðum í vistheimt, s.s. aðgerðaráætlun í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem stefnir að því að 15% raskaðra vistkerfa verði endurheimt fyrir 2020 (Aichi target 15). Þetta hefur kallað á vinnu við stefnumörkun og að leita leiða til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram. Vegna takmarkaðs fjármagns til stjórnunar náttúruauðlinda og í náttúruvernd (þ.m.t. vistheimt) er einnig mikilvægt að forgangsraða þannig að fé sé nýtt sem best í þágu náttúrunnar. Landgræðsla ríkisins tók þátt í norrænu og eistlensku samstarfsverkefni undir forystu Svía um forgangsröðun og áætlanir í vistheimt sem lauk nýlega með útgáfu ritsins Restoration priorities and strategies; Restoration to protect biodiversity and enhance Green infrastructure: Nordic examples of priorities and needs for strategic solutions (TemaNord 2016: 534).
Markmið verkefnisins var að deila reynslu þátttökuþjóðanna af forgangsröðun og vistheimt. Það var ekki ætlunin að taka saman heildaryfirlit um forgangsröðun í löndunum heldur frekar að sýna með dæmum mögulegar leiðir, ræða þær út frá fræðum um forgangsröðun við nýtingu lands og að leggja grunn að áframhaldandi vinnu um forgangsröðun í vistheimt á Norðurlöndunum. Ólíkar leiðir hafa verið farnar í löndunum en helsta niðurstaðan var að engir staðlar eru til um forgangsröðun í vistheimt og jafnframt hefur mjög takmörkuð vinna farið fram um hvernig best sé að forgangsraða.
Vegna slæms ástands vistkerfa á Íslandi eru mörg vistheimtarverkefni sem æskilegt væri að fara í. Það er því mikilvægt hér á landi sem annars staðar að forgangsraða verkefnum og sú vinna sem fram fór í samstarfsverkefninu ætti að nýtast Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Landgræðslunni og öðrum aðilum sem koma að vistheimt við þá vinnu.
Ritið er á ensku og hægt að sækja það hér.
Þessi vinna byggðist á verkefni sem sami hópur vann undir stjórn Norðmanna, um hvernig Norðurlöndin gætu skipulagt vinnu til að bregðast við markmiðum sem tengjast vistheimt í aðgerðaráætlun samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni til 2020, sérstaklega markmiðið um endurheimt 15% raskaðra vistkerfa (Aichi markmið 15). Þeirri vinnu lauk með útgáfu ritsins The Nordic Aichi restoration project; How can the Nordic countries implement the CBD-target on restoration of 15% of degraded ecosystems within 2020? (TemaNord 2015: 515) og má sækja það hér.