Árið 2013 gerðu Landgræðslan og Landsvirkjun með sér samning um aðgerðir til kolefnisbindingar með uppgræðslu lands í Koti á Rangárvöllum. Samningssvæðið var síðan stækkað árið 2015 og nú er unnið að uppgræðslu á um 720 ha. svæði í landi Kots og Steinkross. Landið sem unnið er á var annað hvort örfoka eða lítt gróið. Við uppgræðsluna hefur aðallega verið notað kjötmjöl sem gefið hefur mjög góðan árangur eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Birki er gróðursett í lundi á uppgræðslusvæðinu til að flýta fyrir útbreiðslu þess.
Landsvirkjun greiðir allan kostnað við framkvæmd verkefnisins og mun telja þá kolefnisbindingu sem á sér stað í jarðvegi og gróðri sér til tekna í sínu kolefnisbókhaldi.