4.5.2018 / Á vegum Landgræðslu ríkisins er að hefjast endurheimt á 60 hektara votlendi í Fjarðabyggð. Verkefnið felur einnig í sér vöktun á breytingum sem verða á svæðinu við þessa aðgerð. Þá er ætlunin að útbúa tilheyrandi fræðsluefni fyrir grunnskólanema og almenning. Verkefnið hlaut 150 þúsund dollara styrk frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) og verður unnið í nánu samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð.
Það voru þeir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Árni Bragason landgræðslustjóri og Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar sem hrintu verkefninu af stað með táknrænum hætti þegar þeir hófu að moka ofan í fyrsta skurðinn af mörgum. Athöfnin fór fram 2. maí á Hólmum í Reyðarfirði, en þar verða endurheimtir um 60 hektarar eins og fyrr segir. Votlendi varðveita mikið af kolefnisforða jarðar en ef votlendi er þurrkað upp hefst útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Að lokinni afhendingunni á Hólmum var fundinum haldið áfram í húsakynnum Fjarðaáls en þar fjallaði Magnús Þór um áherslur Fjarðaáls í umhverfismálum og benti á að þrátt fyrir að álframleiðsla hafi aukist hér á landi þá hefur með nýrri og betri tækni verið hægt að draga úr umhverfisáhrifum á sama tíma. Sunna Áskelsdóttir frá Landgræðslunni flutti erindi um endurheimt votlendis og kynnti sérstaklega þau vísindalegu rök sem liggja að baki því að fara í slíkar aðgerðir. Þau Guðrún Schmidt og Rúnar I. Hjartarson starfsmenn Landgræðslunnar á Austurlandi fjölluðu um það sem framundan er í verkefninu í Fjarðabyggð, annars vegar varðandi endurheimt á 60 ha af landi og hins vegar fræðsluefnið sem á að framleiða fyrir grunnskólanemendur. Þá fjallaði Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar um gæði endurheimtar og Árni Bragason landgræðslustjóri lauk dagskránni með því að tala um lofslagsbreytingar og áhrif þeirra hér á Íslandi auk þess að segja frá nýjum votlendissjóði sem komið hefur verið á fót hér á landi og var nýverið kynntur á Bessastöðum.