Select Page

14.3.2017 / Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Landgræðsla ríkisins og Landssamtök sauðfjárbænda, hafa gert með sér samkomulag til 10 ára um um mat á gróðurauðlindum. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á. Hins vegar að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Skrifað var undir samninginn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Góð þekking á auðlindinni þarf að vera til staðar
Til að tryggja sjálfbæra nýtingu gróðurauðlinda landsins er nauðsynlegt að koma á heildstæðu ferli um vöktun gróðurs og jarðvegs á Íslandi.  Áþekkt fyrirkomulag hefur verið gert við sjávarauðlindir með góðum árangri.

Frá undirrituninni í dag. F.v. Formaður faghópsins er Oddný Steina Valsdóttir; varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Árni Bragason, landgræðslustjóri, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Hér er búið að skrifa undir samninginn. F.v.Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Árni Bragason, landgræðslustjóri, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Núverandi búvörusamningur gerir ráð fyrir að ráðist sé í verkefni sem innifelur slíkt símat á ástandi gróðurauðlindarinnar. Landbúnaður byggir á nýtingu lands til beitar og akuryrkju og slíkar upplýsingar eru því þeirri atvinnugrein afar mikilvægar. Jafnframt þurfa stjórnvöld á reglulegum upplýsingum að halda  um t.d. kolefnisforða í jarðvegi og gróðri vegna alþjóðlegra skuldbindinga, sem og áhrif annarrar nýtilkominnar landnýtingar á jarðveg og gróður, samanber gríðarlega aukningu erlendra ferðamanna á undanförnum árum.

Umsjón verkefnisins í höndum Landgræðslunnar
Landgræðslunni er falin umsjón verkefnisins, en samkvæmt lögum um stofnunina ber henni að: „hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð“. Landgræðsla ríkisins hefur nú þegar nauðsynlega innviði til þess að hafa umsjón með slíkri vöktun. Stofnunin rekur héraðssetur í öllum landshlutum, hefur hæft starfsfólk sem sinnir eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs og rekur vöktunarkerfi þar sem fylgst er með kolefnisbúskap og gróðurauðlindum á landgræðslusvæðum.

Landgræðslan mun ráða verkefnisstjóra sem mun vinna í nánu samstarfi við sérfræðinga stofnunarinnar og faghóp verkefnisins.

Formaður faghópsins er Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Aðrir í hópnum eru: Borgar Páll Bragason, fagstjóri í nytjaplöntum RML, Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent LbhÍ, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor HÍ og Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur Náttúrufræðistofnun Íslands.

Alls verður varið 35,5 milljónum króna til verksins á yfirstandandi ári.

Til frekari glöggvunar á samkomulaginu eru hér birt tvö viðhengi:
Viðhengi I
Viðhengi II 

Skip to content