23.11.2016 / Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast hana hér. Greinin nefnist Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson.
Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman; a) óuppgrædd svæði, b) endurheimt mólendi og c) land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu. Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.
Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundum sem er að hnigna á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi, en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda, en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.