Select Page

26. janúar 2015 | Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag sagði að Landgræðsla ríksins hefði lagt áherslu á að virkjað væri við Hagavatn. Af því tilefni skal það áréttað að það er ekki hlutverk Landgræðslunnar að segja til um hvort eða hvar sé rétt að virkja. Hins vegar hefur Landgræðslan nokkrum sinnum verið beðin um umsögn vegna þeirra umhverfisáhrifa sem hugsanleg Hagavatnsvirkjun hefði á sandfok á svæðunum sunnan Langjökuls. Á þessu tvennu er reginmunur.

Rannsóknir í nágrenni Hagavatns
Allnokkrar rannsóknir liggja fyrir um sandfok á þessi svæði, en þær sýna m.a. að þótt sandfok eigi sér fyrst og fremst stað í þurrum norðlægum áttum sunnan Langjökuls þá á sandfok sér einnig stað í öðrum vindáttum þannig að sandurinn er töluvert að fjúka til og frá.

Mikið magn af sandi berst frá rótum jöklanna inn á svæðið. Um er að ræða tvær megin sandleiðir og aðeins fjallað um þá austari. Það er um 10 km breið sandleið sem á upptök sín við Eystri- og Vestari Hagafellsjökul og nær niður á Rótarsand en angi af þeirri sandleið teygir sig einnig vestur fyrir Hlöðufell. Gífurlegt sandmagn er á öllu svæðinu norðan línuvegarins og virðast ekki hafa orðið miklar breytingar á því á síðustu 10 árum, ef borin eru saman þau gögn sem til eru af svæðinu. Þar sem vatn flæmist um svæðið meðfram Læmi og sunnan Hagavatns er sandurinn mjög leirblandaður.

Kortlagning sumarið 2005
Landgræðsla ríkisins kortlagði sumarið 2005 þau svæði sem eru undir áhrifum af sandfoki frá suðurjaðri Langjökuls en þó með sérstakri áherslu á sandsvæði frá Eystri- og Vestari Hagafellsjökli.

Mikil sanduppspretta virtist vera frá Vestari-Hagafellsjökli og berst sandurinn til suðurs undan þurrum norðanáttum allt suður á Rótarsand. Áin Læmi ber einnig mikið efni með sér austur með jöklunum að Hagavatni og blæs því sandur af öllu þessu svæði.

Stór áfoksgeiri frá Vestari-Hagafellsjökli teygir sig til suðurs. Einn angi hans liggur suður með vestanverðu Mosaskarðsfjalli en þar hækkar landið og sandurinn minnkar eftir því sem hærra dregur. Sömu sögu er að segja í Lambahrauni þar sem sandurinn minnkar eftir því sem land rís hærra til suðurs og austurs en allur norður og vesturhluti hraunsins er sandi orpinn. Mestur sandur hefur því safnast vestast í Lambahraunið og niður á Rótarsand.

Áhrif lónsstæðisins
Það var mat Landgræðslunnar að hugmyndir um fyrirhugað lónsstæði, sem hluti af rennslisvirkjun, muni draga verulega úr sandfoki á þessum slóðum og setja eitthvað af uppsprettum sandfoks undir vatn. Brýnt væri, sagði í áliti Landgræðslunnar á sínum tíma, að það yrði að halda vatnsborðshæðinn sem jafnastri. Sandur og jökulframburður myndi setjast til í fyrirhuguðu lóni og draga úr framburði með Farinu niður í Sandvatn á Haukadalsheiði, sem er æskilegt, því þaðan fauk oft sandur á aðliggjandi svæði. Hækkun grunnvatnsstöðu mundi einnig hafa jákvæð áhrif á auðnirnar umhverfis fyrirhugað lón.

Niðurstaða umsagnar Landgræðslunnar
Í áliti Landgræðslunnar frá árinu 2011 sagði: „Því er ekki haldið fram hér að hækkun vatnsborðs í Hagavatni muni leysa allan vanda vegna sandfoks á þessum slóðum og það er vissulega ljóst að sandfok úr fornum vatnsbotni Sandvatns muni halda áfram að valda skaða á vesturhluta svæðisins sunnan Langjökuls. En ef fyrirhugað lón fyrir rennslisvirkjun yrði myndað, myndi það tvímælalaust draga úr sandfoki á austurhluta svæðisins sunnan Langjökuls. Landgræðslan leggur hér ekkert mat á önnur umhverfisáhrif af hugmyndum um virkjun við Hagavatn.”

Eins og sjá má hér að framan lagði Landgræðslan einungis mat á mögulegar afleiðingar rennslislóns á sandfok en tók ekki afstöðu til þess hvort yrði virkjað á þessum slóðum. Landgræðslan hvorki hvetur né letur til virkjana og skiptir þá engu máli hvar þær eru staðsettar á landinu, en það er hlutverk Landgræðslunnar að veita umsagnir um umhverfisáhrif virkjana.

Sjá nánar um þetta mál á heimasíðu dr. Ólafs Arnalds: http://www.moldin.net/blogg—blog

Skip to content