9. júlí 2015 22:44. | Gosið í Eyjafjallajökli sýndi að birkiskógar þola ágætlega töluvert öskufall en lággróður getur orðið fyrir miklum skakkaföllum. Því er mikilvægt að stuðla að uppbyggingu skóga eða kjarrs á svæðum þar sem búast má við öskufalli. Það er hinsvegar lítið vitað um það hvernig uppvaxandi ungskógar bregðast við slíku áfalli. Dagana 24. júní til 1. júlí var sett upp tilraun þar sem líkt er eftir öskufalli á ungt birki.
Tilraunin er á svokallaðri Milljón sem er uppgræðslusvæði norðvestan við Heklu, skammt frá vegamótum Landvegar og Dómadalsleiðar. Á því svæði hefur verið gróðursett allmikið af birki á vegum Hekluskóga. Birkið er nú er orðið allt að hálfur metri að hæð.
Tilrauninni var valinn staður í birkigróðursetningu frá sumrinu 2009. Þar voru afmarkaðir 16 reitir. Hver þeirra er um það bil 3 x 15 m að stærð og með 18-20 birkiplöntum sem skiptast á tvær gróðursetningarrásir. Fjórir þeirra voru þaktir með 4 cm þykku öskulagi, fjórir með 8 cm þykku lagi og fjórir með 16 cm þykku öskulagi. Síðan eru fjórir reitir til viðmiðunar sem engri ösku var dreift á. Ösku var mokað með krabba inn í reiti og henni síðan jafndreift yfir reitinn. Síðan var borið á helming plantna í hverjum reit til að kanna hvort vel nærðar plöntur þoli betur öskufall en aðrar plöntur.
Vöxtur og lifun birkis í tilraunareitum var ákvörðuð áður en öskunni var dreift og síðan verður fylgst með hvoru tveggja a.m.k. til hausts 2016. Einnig verða áhrif öskunnar á annan gróður mæld sem og breytingar á þykkt ösku í tilraunareitum.
Þessi tilraun tengist tveimur verkefnum sem Landgræðslan stýrir. Annarsvegar er það verkefnið GróGos: Mat á hættu á síðkominni dreifingu gosefna, sem er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi (GOSVÁ). Það verkefni er styrkt af Ofanflóðasjóði. Hinsvegar er það verkefnið ERMOND: Vistheimt gegn náttúruvá, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.
Í ERMOND verkefninu taka þátt um 20 norrænir aðilar. Helstu samstarfsaðilar hér á landi eru Veðurstofan, Landbúnaðarháskólinn og Hekluskógar.