20.12.17 / Áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi er ný grein, eftir Bryndísi Marteinsdóttur og tvo aðra höfunda, sem birtist nýlega í Icelandic Agricultural Science.
Höfundar gefa yfirlit yfir rannsóknir og skrif um áhrif sauðfjárbeitar á úthaga hérlendis og fóru í gegnum 347 greinar fyrir þá vinnu. Einungs 44 þeirra voru með haldbær töluleg gögn til að gera safngreiningu (e: meta analysis) á áhrifum beitar á ýmsa vistfræðilega þætti úthaga, en þessar greinar byggðu á 16 ólíkum rannsóknum.
Hin gögnin greindu frá of einföldum athugunum, voru endursagnir úr nothæfum gögnum eða voru meira og minna skoðanir viðkomandi höfunda. Niðurstaðan var sú að fyrir flestar vistfræðibreytur voru birtar rannsóknir of fáar til að draga mætti almennar ályktanir útfrá þeim með safngreiningu. Marktæk áhrif sem fundust voru að á beittu landi bar meira á rofi í gróðurþekjunni og að beit hafði marktæk áhrif á gróðursamfélögin.
Það vekur vissulega athygli hversu mörg göt eru í fræðilegri þekkingu á áhrifum úthagabeitar á Íslandi með tilliti til þess hversu löng hefð er á sauðfjárbeit. Hér er greinilega þörf á miklu átaki til að umræða um beit geti farið fram á traustari fræðilegum grunni þar sem byggt er á staðreyndum og mögulegt er að taka upplýstar ákvarðanir. Smella hér til að sjá greinina.