Select Page

Alaskalúpína á uppruna sinn að rekja til Alaska og tilheyrir ætt belgjurta. Belgjurtir hafa þá sérstöðu meðal plantna að lifa í sambýli við bakteríur. Bakteríurnar (af ættkvíslinni Rhizobium) mynda hnýði á rótum belgjurtanna og vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu sem plantan notar sér til framdráttar. Belgjurtir eru því ekki háðar köfnunarefnisáburðargjöf eins og aðrar plöntur en algjörlega háðar samlífinu við bakteríurnar. Köfnunarefnisbindingin gerir það að verkum að við rotnun plöntuleifa verður köfnunarefnið eftir í jarðveginum sem nýtist öðrum plöntum líka og verður til þess að byggja um frjósaman jarðveg.

Alaskalúpína er harðgerð, fljótvaxin og þrífst vel í sendnum og malarkenndum jarðvegi. Hún þrífst hins vegar illa á foksöndum og ofan 300-400m hæðar. Alaskalúpína hefur reynst vel sem landgræðsluplanta hér á landi og bindur mikið kolefni.

Markmið notkunar: Að auka frjósemi jarðvegs og búa í haginn fyrir annan gróður.

Fræþroski: Fræ lúpínunnar er fullþroskað um fyrri part ágúst mánaðar. Það er auðmerkjanlegt þegar fræbelgirnir fara að springa og þeyta fræinu frá plöntunni. Þegar belgirnir eru dökkir, nær svartir, er fræið svo gott sem fullþroskað.

Náttúruverndarsjónarmið: Alaskalúpína er ágeng að eðlisfari og getur náð fótfestu í margs konar gróðurlendi. Eftir að lúpínan hefur numið land getur reynst erfitt að hemja útbreiðslu hennar. Fara skal með gát við notkun hennar í nálægð gróins lands, þar sem hún gæti hæglega numið land og orðið ríkjandi. Óþarft er að sá henni í land þar sem náttúrulegur gróður er í framför. Lúpína getur breiðst út með miklum hraða og dreifir sér hratt niður gil og skorninga þar sem leysingavatn getur borið fræin með sér. Lögum samkvæmt má ekki sá lúpínu í friðlýst svæði eða svæði sem eru á náttúruminjaskrá, þar sem tilgangur þeirra er að varðveita sérstæð náttúrufyrirbæri – jarðmyndanir og gróður. Huga þarf vel að staðarvali sáninga í námunda við þessi svæði. Lúpína getur verið áberandi sökum stærðar sinnar og litar og skal einnig hafa það í huga við staðarval sáninga, t.d. skal forðast að sá lúpínu í fjallshlíðar.

Stefna Landgræðslu ríkisins í notkun á alaskalúpínu til landbóta
Alaskalúpínu skal eingöngu nota á stórum, samfelldum sanda-, vikra- og melasvæðum þar sem sjálfgræðsla er lítil og uppgræðsla, skógrækt eða önnur ræktun er mjög kostnaðarsöm eða erfiðleikum bundin, nema alaskalúpína sé notuð.

Landgræðslan selur ekki né afhendir lúpínufræ til annarra – en skoðað verður hvert tilvik þar sem óskað verður eftir sáningu frá okkur í verktöku.

Dreifing alaskalúpínu skal takmarkast við samfelld, sendin rofsvæði (rofstig 4. og 5.) sem eru a.m.k. 500 ha að stærð. Ekki skal dreifa alaskalúpínu nær þjóðgörðum eða friðlýstum svæðum en í 1 km fjarlægð. Til að takmarka flutning alaskalúpínufræja með vatni skal ekki dreifa tegundinni nær strönd sjávar eða fallvatna en 0,5 km fjarlægð. Innan þessara takmarka skal eingöngu nota tegundina þar sem allir eftirtaldir þættir eiga við:

Brýnir hagsmunir eru vegna landgræðslu, skógræktar, akuryrkju, samgangna eða annarra brýnna þarfa.

  1. Þar sem alaskalúpínu hefur þegar verið dreift í verulegum mæli.
  2. Kostnaður við aðrar uppgræðsluaðferðir er svo mikill að réttlætanlegt teljist að nota tegundina.
  3. Náttúruminjum, sjaldgæfum tegundum eða sérstöku landslagi sé ekki ógnað með notkun hennar.
  4. Upplýsingar um alaskalúpínuna af vef NOBANIS.

Ýmis rit um alaskalúpínu:
Ása L. Aradóttir 2000. Áhrif lúpínu á ræktun birkis. Ráðunautafundur 2000. Bændasamtök Íslands, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
Ása L. Aradóttir 2000. Birki og lúpína. Samkeppni eða samvinna. Skógræktarritið 2000.
Borgþór Magnússon (ritstjóri) 1995. Líffræði alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) – Fjölrit Rala nr. 178.
Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni Diðrik Sigurðsson 2001. Gróðurframvinda í lúpínubreiðum – Fjölrit Rala nr. 207.

 

Skráð útbreiðsla lúpínu árið 2010.

Skráð útbreiðsla lúpínu árið 2010.

 

Vefurinn Ágengar tegundir – alaskalúpína og skógarkerfill.

 

Skip to content