Select Page

12. maí 2015 | Í ár er alþjóðlegt ár jarðvegs og það er rík ástæða til að minna á mikilvægi moldarinnar í vistfræðilegu og hagrænu samhengi. Moldin er okkur mönnunum lítt sýnileg og við gerum okkur því miður ekki fyllilega grein fyrir því hversu mikill grunnur hún er að afkomu okkar.Moldin/jarðvegurinn er ein af lykilstoðum grænna hagkerfa og það er löngu tímabært að við tökum af skarið og förum að umgangast þessa auðlind samkvæmt því.

Við höfum tapað gríðarlegu magni af jarðvegi úr vistkerfum okkar og erum því miður enn að horfa á eftir ófáum tonnum af mold úr rofabörðum og öðrum rofsvæðum árlega.

Mikið hefur verið gert í landgræðslu og skógrækt til að sporna gegn jarðvegstapinu en það er langt í frá nóg. Það vantar skýra sýn og hugarfarsbreytingu á meðal þeirra sem móta stefnur um landnýtingu.
Það vantar líka hugarfarsbreytingu á meðal allra þeirra sem nýta landið og það þarf að efla almenna þekkingu á mikilvægi jarðvegsverndar í staðbundnu og hnattrænu samhengi – jarðvegseyðing á heimsvísu hefur
t.a.m. gríðarleg neikvæð áhrif á vatnsbúskap – þegar moldin er farin þá hverfur vatnið. Jarðvegseyðing hefur einnig veruleg áhrif á áhrif lofslagsbreytinga – þegar gróðurinn og moldin eru horfin verður engin kolefnisbinding.

Jarðvegsvernd er eitt af stærri umhverfismálum sem við hér á Íslandi og heimurinn allur þarf að takast á við – af festu og ákveðni. Jarðvegur myndast á árhundraða, jafnvel árþúsunda skala og samkvæmt því er þessi auðlind óendurnýjanleg.
Sem betur fer vitum við að hægt er að hraða nýmyndun jarðvegs/moldar með landgræðslu og vistheimtaraðgerðum en ferlið er engu að síður langt og við okkar aðstæður tekur það áratugi eða árhundruð að endurheimta jarðvegseiginleika.

Það eru yfir 100 ár síðan við gerðum okkur grein fyrir alvarleika jarðvegseyðingar og mikilvægi jarðvegsverndar. Lög um “skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands” frá árinu 1907 sýna það svo ekki verður um villst.
Við hljótum þó að spyrja okkur í dag – af hverju höfum við ekki náð að byggja upp kerfi sem tryggir jarðvegsvernd og stuðlar að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, hvort sem það er í landbúnaði, ferðamennsku eða iðnaði?

Við bæði getum og eigum að vera sterk rödd fyrir jarðvegsvernd í alþjóðasamfélaginu – við eigum langa og að mörgu leyti mjög árangursríka sögu sem við getum og erum að deila með öðrum löndum sem eru að glíma við sömu áskoranir og við.
En, til þess að það sé marktækt þá verðum við líka að sýna gott fordæmi og verða leiðandi sem þjóð sem sinnir jarðvegsvernd ekki bara í orði – við einfaldlega verðum að taka næsta skref og setja okkur ný og framsækin markmið.

Meðfylgjandi er veggspjald sem þér er frjálst að nota og dreifa að vild – munum eftir moldinni!

Með kærri kveðju
Þórunn Pétursdóttir
Samstarfshópi um alþjóðlegt ár jarðvegs 2015

……………………………………
Landgræðsluvistfræðingur
Rannsókna- og þróunarsviði
Landgræðsla ríkisins

Athugið að teikningin hér fyrir ofan var vistuð í Dropbox. Þeir sem ekki eru með aðgang að Dropboxi gætu þurft að skrá sig áður en þeir geta náði í teikninguna.

Teikning í jpg formi

https://www.dropbox.com/s/7iu2lqj69egrao6/MOLDIN_1000_pixlar_.jpg?dl=0

Teikning í pdf formi

https://www.dropbox.com/s/ibxi0aso3um8ur1/MOLDIN.pdf?dl=0

Teikning í power-point

https://www.dropbox.com/s/lxcxlm7t127ouvn/MOLDIN.pptx?dl=0

 

Skip to content