Select Page

| Í dag er alþjóðlegur dagur jarðvegs og með því vilja Sameinuðu þjóðirnar vekja athygli á mikilvægi jarðvegsins. Ekki veitir af, því þessi meginundirstaða fæðuöflunar jarðarbúa eyðist með ógnvekjandi hraða víða um heim. Árið 2015 hefur verið helgað jarðveginum, undir yfirskriftinni „Heilbrigður jarðvegur fyrir heilbrigt líf” og verður opnunarhátíð þess hluti af 69. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.

Þessi hugmynd að ári jarðvegs spratt upp á Íslandi á alþjóðlegu samráðsþingi sem Landgræðslan stóð fyrir á Selfossi haustið 2007, sem nefndist „Jarðvegur, samfélög og hnattrænar breytingar” (Soils, Society and Global change).

Jarðvegur er það sem tengir milli fæðu, vatns, loftslags, líffræðilegrar fjölbreytni og lífsins. Það er mikilvægt að skilja þessar tengingar og vernda þessa auðlind jarðar. Fjölmörg aðildarríki Sameinuðu þjóðirnanna standa fyrir viðburðum til að fagna degi jarðvegsins. Smella hér.

Mikilvægt er að vekja athygli á nauðsyn sjálfbærrar notkunar jarðvegs, hinnar þöglu auðlind jarðarinnar. Bæði meðal almennings, fólksins sem allt lifir á landinu, og hjá þeim sem taka ákvarðanir sem skipta máli fyrir framtíðina. Jarðvegurinn kemur inn í ýmis mikilvæg mál samtímans, fæðuöryggi, aðlögun að loftslagsbreytingum og mótvægisaðgerðum, grunnþjónustu vistkerfa, að draga úr fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun. Mikilvægt er að þekkja þessa auðlind og afla upplýsinga um ástand lands svo að við lærum að umgangast jarðveg á sjálfbæran hátt.

Ný heimildarmynd „Symphony of the Soil” verður sýnd í fríu vefstreymi 5.-12. desember. Smella hér. Þessa nýja mynd Deborah Koons Garcia, sem einnig leikstýrði myndinni „The Future of Food”, er listræn sýn á töfraveröld jarðvegsins. Fram koma vísindamenn, bændur, náttúruverndarsinnar, stjórnmálamenn, sagnfræðingar og frumkvöðlar sem leggja sitt af mörkum til vekja athygli á þeim möguleikum sem felast í heilbrigði jarðvegs, sem þá getur framleitt og skapað heilbrigðar plöntur og þar með heilbrigt fólk sem býr á heilbrigðri jörð.

Skip to content