Select Page

29. júní 2015 20:28. | “Ísland á sér langa sögu gróðurs- og jarðvegseyðingar þar sem hafa tvinnast saman náttúrleg eyðingaröfl og eyðing í kjölfar nýtingar mannsins á gróðurauðlindinni. Á síðustu áratugum hefur margt áunnist í baráttunni gegn eyðingaröflunum ekki síst eftir að þekkingu á vistfræðilegum ferlum fleygði fram. Landið er hins vegar enn víða í tötrum og jarðvegseyðing sem rekja má til ofnýtingar lands á sér enn stað”, segir í upphafi ályktunar stjórnar Vistfræðifélags Íslands um úrskurð yfirítölunefndar um beit á Almenningum.

“Nýlegir atburðir benda til að við eigum enn langt í land varðandi þessi tvö atriði og er þar vísað til úrskurðar meirihluta yfirítölunefndar um að leyfa beri beit á afétti Almenninga. Úrskurðurinn byggði ekki á bestu fáanlegu þekkingu fremstu vísindamanna landsins um gróður- og jarðvegseyðingu og endurheimt vistkerfa. Þvert á móti var álit þeirra um að ekki væri tímabært að leyfa beit á svæðinu hunsað. Þetta var mögulegt vegna gallaðrar löggjafar um landnýtingu og eignarhald og því vó álit lögfróðra og hagsmunaaðila þyngra en vísindaleg vistfræðileg þekking.

Stjórn vistfræðifélagsins harmar þessa stöðu og hvetur stjórnvöld og Alþingi til að beita sér sem fyrst fyrir því að skapa það lagaumhverfi sem þarf til að ná langtímamarkmiðum um verndun náttúrunnar, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra nýtingu gróðurauðlindarinnar jafnt sem annarra náttúruauðlinda.”

Stjórn Vistfræðifélags Íslands,

Ingibjörg Svala Jónsdóttir, formaður
Ágústa Helgadóttir
Erpur Snær Hansen
Gísli Már Gíslason
Tómas Grétar Gunnarsson

Skip to content