10.7.2018 / Fyrir skömmu tók Landgræðslan á móti samstarfsfélögum frá Mourne Heritage Trust á Norður Írlandi. Heimsóknin er liður í ASCENT verkefninu, (Apply Skills and Conserve our Environment with New Tools), sem felur í sér þekkingarmiðlun til að auka fagmennsku við gerð gönguleiða og áningarstaða, með gróður- og jarðvegsvernd að markmiði.
Hópurinn heimsótti marga af helstu ferðamannastöðum á Reykjanesi og Suðurlandi. Farið var m.a. í Gjána í Þjórsárdal, í Þórsmörk og Laka, Eldgjá og Landmannalaugar. Óhætt er að segja að ferðin hafi í senn verið ánægjuleg og árangursrík þrátt fyrir þungbúið og vætusamt veður mestan hluta hennar.
Rétt er að taka fram að hópurinn naut sérstakrar gestrisni Skógræktarinnar, Umhverfisstofnunnar, Vatnajökulsþjóðgarðs og landvarða, hvar sem komið var.