Select Page

30.5.2017 / Í upphafi árs hófst gerð sjónvarpsþátta á vegum Landgræðslunnar. Þættirnir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni ÍNN og alls hafa verið búnir til 18 þættir en í þeim hefur verið fjallað um landgræðslu og mál henni tengd. Hér fyrir neðan má sjá um hvað var fjallað og hægt er að smella á slóð til að sjá þættina sem eru varðveittir á heimasíðu ÍNN.  Þeir verða einnig á heimasíðu Landgræðslunnar fyrir næstu helgi.  Þáttagerð er lokið að sinni en að óbreyttu verður  henni framhaldið þegar haustar.

1. þáttur 16. janúar 2017
Viðmælendur fyrsta þáttar voru þeir Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs Landgræðslunnar og Kristinn Jónsson, bóndi á Staðarbakka í Fljótshlíð. Magnús ræðir einkum um nýtingu seyru til landgræðslu en Kristinn um landgræðslu á afréttinum og einnig um landgræðslu og landbætur í landi Staðarbakka. SMELLA HÉR.

2. þáttur 23. janúar 2017
Rætt var við Guðmund Halldórsson, rannsóknastjóra Landgræðslunnar um hlýnun lofthjúpsins og fjölgun skógarmeindýra. Þá fjallar Guðmundur um innflutning plantna til Íslands og hættur sem eru því samfara. Í þættinum er einnig rætt við Esther Guðjónsdóttur, formann Landgræðslufélags Hrunamanna um félagið. Esther segir auk þess frá safni sem hún er með heima hjá sér á Sólheimum í Hrunamannahreppi. SMELLA HÉR.

3. þáttur 30. janúar 2017
Jón Jónsson, fræverkunarstjóri Landgræðslunnar segir frá fræverkun í Gunnarsholti, Hafdís Hanna Ægisdóttir talar starfsemi Landgræðsluskólans, en Guðmundur Halldórsson, rannsóknastjóri Landgræðslunnar fjallar um meindýrið ertuyglu. SMELLA HÉR.

4. þáttur 6. febrúar 2017
Í fjórða þætti er rætt við Ólaf Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ólafur og Ása Aradóttir, sem einnig er prófessor við Landbúnaðarháskólann, eru höfundar bókarinnar Lesum og læknum landið en um hana, og margt annað, er rætt um í þættinum. SMELLA HÉR.

5. þáttur 13. febrúar 2017
Í fimmta þætti lá leiðin í Sólheimahjáleigu í Mýrdal en þar býr Einar Freyr Elínarson. Í Sólheimahjáleigu er fjárbú en ekki er síður gert út á ferðamenn. Einar Freyr tekur þátt í verkefninu Bændur græða landið og með aðstoð Landbótasjóðs hefur hann borið lífrænan áburð á örfoka land. SMELLA HÉR.

6. þáttur 20. febrúar 2017
Rætt er við Ásgeir Árnason, bónda í Stóru-Mörk sem er við norðurmörk Eyjafjalla. Stóra-Mörk er síðasti bærinn sem ekið er framhjá á leiðinni í Þórsmörk. Ásgeir hefur mikið unnið í landgræðslu á liðnum árum og áratugum. SMELLA HÉR.

7. þáttur 27. febrúar 2017
Í þættinum er spjallað við þau Hlyn Óskarsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands og Sunnu Áskelsdóttur, verkefnastjóra hjá Landgræðslu ríkisins. Umræðuefnið er endurheimt votlendis og gróðurhúsalofttegundir. SMELLA HÉR.

8. þáttur 6. mars 2017
Í þessum þætti er rætt við Örn Þór Halldórsson, verkefnastjóra hjá Landgræðslunni um göngustíga og Ólaf Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands um jarðvegsrof. SMELLA HÉR.

9. þáttur 13. mars 2017
Rætt er við Guðmund Þorvaldsson á Bíldsfelli II í Grafningi og Finnboga Magnússon framkvæmdastjóra Jötunn Véla. Guðmundur segir frá landgræðslu á jörð sinni en Finnbogi ræðir um tæknibyltingar í landbúnaði sem sannarlega skipta máli þegar kemur að landgræðslu- og umhverfismálum. SMELLA HÉR.

10. þáttur 20. mars 2017
Í þættinum er rætt við Árna Bragason, landgræðslustjóra. Árni fjallar meðal annars um fæðuöryggi, rafvæðingu bíla og báta og nauðsyn landgræðslu, skógræktar og kornræktar svo eitthvað sé nefnt. SMELLA HÉR.

11. þáttur 27. mars 2017
Til að tryggja sjálfbæra nýtingu gróðurauðlinda landsins er nauðsynlegt að koma á heildstæðu ferli um vöktun gróðurs og jarðvegs á Íslandi. Í mars var skrifað undir samkomulag um mat á gróðurauðlindum landsins. Um þetta samkomulag er fjallað í þættinum. SMELLA HÉR.

12. þáttur 3. apríl 2017
Í þættinum er fjallað um sláturúrgang og framleiðslu á kjötmjöli. Græðum landið heimsótti Kjötmjölsverksmiðjuna Orkugerðina sem er eina fyrirtækið sinnar tegundar hér á landi. Rætt við Guðmund Tryggva Ólafsson, stjórnarformann kjötmjölsverksmiðjunnar, Víði Þórsson, verksmiðjustjóra og Hrein Óskarsson, sviðsstjóra hjá Skógræktinni. SMELLA HÉR.

13. þáttur 10. apríl 2017
Í þættinum er rætt við Bjarna Másson á Háholti, bónda og formann Landbótafélags Gnúpverja um landgræðslu. Þá segir Garðar Þorfinnsson, Landgræðslunni, frá Landbótasjóði og Anne Bau líffræðingur fjallar um spírunarprófanir. SMELLA HÉR.

14. þáttur 1. maí 2017
Þátturinn fjallar um Hagagæði en það er verkefni á vegum Landgræðslunnar og Félags hrossabænda. Verkefninu er ætlað er að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands, velferð hrossa, auka ábyrgð landnotenda, sem vörslumanna lands og að auka umhverfisvitund landeigenda og landnotenda. SMELLA HÉR.

15. þáttur 8. maí 2017
Í þessum þætti er rætt við Andrés Arnalds, verkefnisstjóra hjá Landgræðslunni og Jón Jónsson, fræverkunarstjóra Landgræðslunnar. Andrés ræðir m.a. um göngustígagerð, Bændur græða landið og auglýsingar fyrirtækja í ferðaþjónustu. Jón var að dreifa kjötmjöli í Koti á Rangárvöllum þegar hann var tekinn tali. SMELLA HÉR.

16. þáttur 15. maí 2017
Í þessum þætti er rætt við Svein Ingvarsson, bónda í Reykjahlíð á Skeiðum um landgræðslu á svæðinu. Byggð á Skeiðum stóð mikil ógn af Reykjasandi, sem er skammt frá Reykjahlíð. Fyrstu skrefin í landgræðslu á vegum ríkisins voru tekin á Reykjasandi sumarið 1907 – og það bjargaði byggðinni. SMELLA HÉR.

17. þáttur 22. maí 2017
Í þættinum er rætt við Hrafnkel Karlsson bónda á Hrauni í Ölfusi. Hrafnkell segir frá landgræðslu, baráttunni við sandinn og hlunnindajörðinni Hrauni. Það er ekki langt síðan stundum þurfti að fá ýtu til að ryðja sandsköflum á Þorlákshafnarveginum en nú er það liðin tíð. SMELLA HÉR.

18. þáttur 29. maí 2017
Þátturinn er helgaður umhverfissamtökunum Landvernd. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi. SMELLA HÉR.

Skip to content