15.12.2016 / Landgræðsla ríkisins hefur það hlutverk skv. lögum um varnir gegn landbroti að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með Vörnum gegn landbroti af völdum fallvatna. Landgræðslan auglýsir nú eftir umsóknum um styrki til varna gegn landbroti.
Aðgerðir til að hefta landbrot af völdum vatnsfalla eru fólgnar í gerð bakkavarna og í sumum tilfellum byggingu varnargarða. Með bakkavörnum er átt við að grjót- og/eða malarfylling er sett við árbakkann til þess að stöðva landbrot. Bakkavarnir hafa oft á tíðum minni áhrif á rennsli áa og eru minna áberandi í umhverfinu en varnargarðar. Varnargarðar geta á hinn bóginn verið nauðsynlegir þar sem ár bera undir sig framburð og flæmast út fyrir farvegi sína.
Aðkallandi verkefni eru við vatnsföll víða um land auk þess sem sinnt er viðhaldi eldri varnargarða. Ekki er unnt að sinna nema hluta þeirra beiðna sem berast árlega um aðgerðir. Við forgangsröðun verkefna er lögð áhersla á varnaraðgerðir þar sem ræktuðu landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum stafar hætta af ágangi vatna. Einnig verður við forgangsröðun umsókna höfð hliðsjón af verðmæti þess lands eða mannvirkja sem landbrotið ógnar.
Umsóknarfrestur er 31. janúar n.k.
Smelltu hér til komast á síðu með umsóknareyðublaði
Smelltu hér til að komast á síðu Varna gegn landbroti