Select Page

 |Það er sóun á dýrmætri auðlind að nýta ekki lífrænan úrgang, hverju nafni sem hann nefnist, sem áburð til landgræðslu. Fjölmargar leiðir eru til, en skort hefur á leiðbeiningar um nýtingu þessara efna við uppgræðslu örfoka lands. Bændur nýta að sjálfsögðu sinn búfjáráburð til ræktunar, en „vandamálaúrgang“ eins og t.d. seyru, svínaskít og moltu mætti nota í miklu meira mæli til áburðar eða íblöndunar í jarðveg á uppgræðslusvæðum. Væri það hvorttveggja í senn, uppgræðsla og vistvæn förgun á úrganginum.

Innan veggja Landgræðslunnar ríkir mikill áhugi á því að nýta meira lífrænan úrgang til uppgræðslu. Vandinn felst oftast í því að lífræn úrgangsefni eru yfirleitt vatnsmikil og rúmmálsfrek sem gerir þau óhagstæð í flutningi og dreifingu og styrkur næringarefna er yfirleitt lágur. En, þrátt fyrir lágan styrk næringarefna eru þetta mikilvæg næringarefni sem ekki ber að sóa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra,  hefur sýnt málaflokknum mikinn áhuga og nýlega veitti ráðherra Landgræðslunni myndarlegan styrk svo stofnunin gæti fundið hagkvæmar leiðir til að koma úrgangsefnunum í nýtanlegt form. Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs hjá Landgræðslunni, sagði að styrkurinn kæmi sér afar vel. „Landgræðslan hefur ekki getað sinnt þessum málaflokki með markvissum hætti þótt stofnunin hafi gefið málefninu ákveðinn forgang. Hér höfum við fengið tækifæri að kanna nýtingu innlendra áburðargjafa og draga úr óvistvænni förgun þessarar auðlindar og á sama tíma draga úr innflutningi á áburði. Það má því segja að lífrænn úrgangur sé auðlind á villigötum.“

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Geitasandi við uppsetningu tilraunar með lífrænum úrgangsefnum. Tilraunin hófst árið 2010. Í henni voru borin saman áhrif 10 mismunandi tegundar af lífrænum úrgangi á gróðurframvindu.

Fleiri myndir á Facebook-síðu Landgræðslunnar, en hér má sjá Sigþrúði Jónsdóttur héraðsfulltrúa við tank sem var fullur af fljótandi svínaskít. Á litlu myndinni er Garðar Þorfinnsson héraðsfulltrúi með sléttfulla skóflu af kúamykju. Smelltu hér til að komast á Facebook.

Skip to content