Select Page

29.06.2018 / Austurbrú í samstarfi við átta austfirskar mennta-, menningar- og rannsóknastofnanir stendur fyrir athyglisverðu verkefni á Austurlandi en í því er m.a. tekin fyrir spurningin „Hvað eiga fullveldi og sjálfbærni sameiginlegt.“  Verkefnið er unnið í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands og í því er skoðað austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli. Afraksturinn má sjá í fjórum sýningum sem er að finna í Safnahúsinu á Egilsstöðum, Skriðuklaustri í Fljótsdal, Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði og í Randulffssjóhúsinu á Eskifirði. Þar eru börn, árin 1918 og 2018, í forgrunni og líf þeirra sett í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Guðrún Schmidt fræðslufulltrúi Landgræðslunnar tók þátt í verkefninu fyrir hönd Landgræðslunnar sem ráðgjafi um sjálfbæra þróun og sem þátttakandi í þróun, vinnslu og framsetningu verkefnisins og fræðsluefnis.
Í tengslum við sýningarnar er skólahópum boðið að heimsækja söfnin og vinna fræðsluefni þeim tengt. Á heimasíðunni www.austfirsktfullveldi.is verða settar inn hugmyndir að verkefnum sem kennarar og aðrir geta nýtt sér. Sjá einnig: https://www.un.is/heimsmarkmidin/

Stofnanirnar sem standa að verkefninu eru Gunnarsstofnun, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Minjasafn Austurlands, Landgræðsla ríkisins, Safnastofnun Fjarðabyggðar, Skólaskrifstofa Austurlands og Tækniminjasafn Austurlands ásamt Austurbrú sem stýrir því. Austurbrú vinnur að hagsmunamálum íbúa á Austurland og er í forsvari fyrir þróun atvinnulífs, samfélags, stjórnsýslu og menningarstarfs á Austurlandi svo fátt eitt sé nefnt.

Skip to content