Select Page

Ríkissjóður hefur frá hruni veitt rúmar 600 milljónir króna í styrki til bænda til að græða upp eignarlönd þeirra. Samvinnuverkefni Landgræðslu ríkisins og bænda, Bændur græða landið, kostaði ríkissjóð um 80 milljónir króna í fyrra.Fréttablaðið fjallaði á laugardaginn um samvinnuverkefnið. Tugþúsundir hektara af eignarlandi bænda hafa verið græddar upp með styrk ríkisins frá árinu 1990. „Tilhögun verkefnisins er sú að Landgræðslan greiðir um 85 prósent af verði áburðarins og lætur af hendi landgræðslufræ bændum að kostnaðarlausu,” segir Sunna Áskelsdóttir, sem annast verkefnið fyrir hönd Landgræðslunnar.

Skilyrði þess að fá að taka þátt í verkefninu er að land bænda, þeirra eigið eignarland, sé illa gróið eða ógróið og þá fá þeir styrk frá hinu opinbera til að gera landið sitt verðmætara og efnisríkara. Rúmlega 500 bændur vítt og breitt um landið hafa tekið þátt í verkefninu árlega frá árinu 1990.

Eftir hrunið árið 2008 þurfti að skera mikið niður í fjárlögum. Þrátt fyrir það, í tíð síðustu ríkisstjórnar, hækkuðu framlögin jafnt og þétt og náðu hámarki árið 2011 þegar rúmum eitt hundrað milljónum var varið í verkefnið. Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segist sjá margt jákvætt við þetta verkefni og sjálfur hafi hann tekið eftir ýmsum breytingum til hins betra, meðal annars gagnvart skógi og útbreiðslu skóglendis.

„Það má segja að það sé jákvætt þegar menn eru að græða upp bletti þar sem eru birkiskógar nálægt. Óbeint hefur það styrkt skógana því í raun er verið að beina fénu þangað frá viðkvæmari blettum.

Auðvitað er það bara góðra gjalda vert að menn séu að reyna að bæta fyrir ofbeitina og stöðva fok. Þeir hafa þurft að standa í því frá þarsíðustu aldamótum að minnsta kosti,” segir Þórólfur Matthíasson prófessor, sem mikið hefur skrifað um landbúnaðinn og gagnrýnt ríkisfjármögnun hans hans.

styrkir til uppgræðslu

Ár    upphæð
2014 81,8 m.kr.
2013 87,7 m.kr.
2012 90,8 m.kr.
2011 102,3 m.kr.
2010 91,0 m.kr.
2009 83,2 m.kr.
2008 78,1 m.kr.
samtals 615,0 m.k
/Fréttablaðið 14.10.2015

 

Skip to content