Select Page

Tveir Lesótómenn, konur, eru meðal nemenda í Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hóf fyrir skömmu árlegt sex mánaða námskeið. Aldrei áður hefur fólk frá Lesótó verið meðal nemenda skólans.

Lesótó er lítið land, inni í miðri Suður-Afríku, og þar eru um tvær milljónir íbúa. „Þetta er spennandi lítið land, hálent og glímir við mikla landeyðingu meðal annars vegna beitar. Þar eru aðstæður að ýmsu leyti líkar og hér á landi. Vegna þess hversu landið er lítið eru meiri líkur á að okkur takist að hafa áhrif á þróunina,“ segir Berglind Orradóttir, aðstoðarforstöðumaður Landgræðsluskólans.

Nemendum Landgræðsluskólans hefur smám saman fjölgað. Að þessu sinni stunda ellefu einstaklingar nám við skólann. Nemarnir koma frá Mongólíu, Kirgistan, Gana, Níger, Úganda og Malaví, auk Lesótó sem áður er nefnt. Allir hafa þeir háskólapróf og starfa sem sérfræðingar hjá stofnunum sem vinna að landgræðslu, jarðvegsvernd eða stjórnun eða eftirliti landnýtingar. Berglind segir að auk hins formlega náms miðli nemendurnir af reynslu sín í milli þannig að þátttakendur læri einnig mikið hver af öðrum.

Námið stendur yfir í sex mánuði. Megnið af tímanum eru nemarnir í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en auk þess um tvo mánuði hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Þessar tvær stofnanir standa að skólanum. Hann er kostaður af utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunarsamvinnu Íslendinga, eins og jarðhita-, sjávarútvegs- og jafnréttisskólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hér eru einnig starfræktir. /Helgi Bjarnason

Skip to content