15.7.2016 / Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Árni Bragason, landgræðslustjóri, undirrituðu í dag samstarfssamning um endurheimt votlendis við Bessastaði. Um leið hófust þau handa við verkið með því að setja fyrstu skóflufyllirnar af mold ofan í skurð í landi Bessastaða. Þar með var ýtt úr vör verkefni við endurheimt votlendis sem er hluti af sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Samkvæmt samningnum mun verkefnið við Bessastaði fela í sér endurheimt votlendis á Bessastaðanesi á um fjögurra hektara svæði í Músavík á sunnanverðu nesinu og um 2,5 hektara svæði í Sauðavík á norðanverðu nesinu. Skurðaruðningum verður ýtt ofan í gamla framræsluskurði en hluta þeirra verður breytt í tjörn og þannig leitast við að endurheimta það votlendi sem áður var á þessum stöðum.
Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með verkefni um endurheimt votlendis á landsvísu. Jarðvegur votlenda geymir um 20 – 30% alls lífræns kolefnisforða jarðar. Þegar votlendi er ræst fram opnast greiðari leið fyrir súrefni niður í jarðveginn og kolefnis- og köfnunarefnissambönd losna sem gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Með því að endurheimta votlendi, sem áður hefur verið framræst, má draga verulega úr þessari losun.
Votlendið á Bessastaðanesi var ræst fram á síðustu árunum fyrir 1970 í því skyni að rækta tún til heyskapar. Túnin hafa þó lítið nýst í því skyni heldur fyrst og fremst verið notuð sem beitarhagar. Auk þess að takmarka losun kolefnis er hvatinn til endurheimtar votlendis í landi Bessastaða að auðga fuglalíf, sem er afar fjölbreytt á Bessastaðanesi en alls hafa 36 fuglategundir verið taldar á nesinu. Meðal annars er þar að finna brandönd og flórgoða sem og talsvert æðarvarp sem virðist vera að aukast ef marka má fuglatalningar. Þá er Álftanes og Bessastaðanes mikilvægur áningarstaður fyrir margæs og rauðbrysting á ferð þeirra yfir hafið.
Vernd og endurheimt votlendis er nú viðurkennd aðferð til að takmarka losun samkvæmt Kýótó-bókuninni. Tillaga þess efnis var lögð fram af Íslandi á sínum tíma í kjölfar rannsókna íslenskra vísindamanna og var hún samþykkt. Nokkuð hefur verið unnið að endurheimt votlendis hér á landi, en ekki með markvissum og skipulögðum hætti til þessa. Í Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem kynnt var fyrir Parísarfundinn 2015 er hins vegar gert ráð fyrir að Landgræðslan haldi utan um endurheimt votlendis á landsvísu og fjármagn sett í það verkefni. Fyrsti samningurinn undir þessum merkjum hefur nú verið gerður og er ætlunin að vinna að fleiri verkefnum um endurheimt víða um land.