Select Page

2.8.16 / „Sú reynsla sem fengist hefur af endurheimt votlendis hér á landi er almennt jákvæð, framkvæmdin er oft einföld, útkoman góð og hún endist vel,“ segir Sunna Áskelsdóttir, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar, en hún hefur jafnframt umsjón með verkefni um endurheimt votlendis hjá stofnuninni. Ríkisstjórnin samþykkti haustið 2015 sóknaráætlun í loftslagsmálum og er endurheimt votlendis einn liður í þeirri áætlun. Umhverfisráðuneytið fól Landgræðslunni að hafa umsjón með framkvæmdinni í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Markmið með endurheimt votlendis er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi og efla lífríki þeirra. Landgræðslan auglýsti á liðnu vori styrki til endurheimtar votlendis, átta umsóknir bárust frá aðilum sem óska eftir samstarfi. Bessastaðir er fyrsta jörðin sem þátt tekur í verk efninu, en aðrar jarðir eru Kasthúsatjörn í Garðabæ, Bleiksmýri í Krýsuvíkurlandi, Stokkseyrarsel í Árborg, Hólar í Öxnadal, Teigarhorn í Berufirði auk svæðis skammt utan við kaupstaðinn á Djúpavogi.

Votlendi gegnir mikilvægu hlutverki
Sunna segir losun gróðurhúsalofttegunda úr framræstu votlendi á Íslandi árið 2013 hafa verið metna á 11,7 milljónir tonna CO2 ígildi. Þessi tala byggi á viðmiðum Vísindanefndar loftslagssamningsins (IPCC) um losun á flatareiningu og sé í ágætu samræmi við niðurstöður innlendra rannsókna. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi árið 2013 var 16,6 millj- ónir tonna CO2 ígilda.
„Votlendi býr oft yfir mikilli frjósemi, fjölbreyttu lífríki og eiginleikum til að miðla næringu og vatni. Votlendi á landi getur dempað flóðasveiflur á vatnasviðum. Jarðvegur þess er mjög kolefnaríkur og geymir verulegan hluta af kolefnisforða jarðar. Á jörðinni þekur votlendi um 3% yfirborðs lands en það geymir 20–30% alls lífræns kolefnis á landi,“ segir Sunna. Að teknu tilliti til losunar er ávinningur af endurheimt votlendis áætlaður um 24,5 t CO2 ígildi ha-1 ár. Sunna segir framræslu votlendis hafa neikvæð umhverfisáhrif í för með sér, þar megi nefna skerta getu lands og vistkerfa til að hreinsa og miðla vatni, t.d. að tempra flóð. „Aðgengi búfénaðar að vatni minnkar, búsvæði votlendisplantna, fugla, fiska og annarra dýra breytist eða tapast sem leiðir til minni líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir hún.

34 þúsund km af framræsluskurðum hér á landi
Alls hafa að sögn Sunnu verið grafnir um 34 þúsund km af framræsluskurð- um hér á landi. Þar af eru 20 þúsund km innan túna, bæði þeirra sem eru í notkun og þeirra sem hafa verið aflögð. Áætlað er að um 4.200 km2 votlendis hafi verið framræstir. Af túnum landsins eru framræst svæði áætluð um 720 km2 og þar af eru um 570 km2 innan þeirra túna sem nú eru í notkun. Ræktaðir skógar og birkiskógar ná alls yfir um 36 km2 á framræstu landi. Framræst land utan núverandi túna og skóga er áætlað um 3.600 km2 . „Því má ætla að mikið af framræstu landi sé ekki nýtt til ræktunar í dag en hvert svæði og tilvik fyrir sig er skoðað sérstaklega,“ segir Sunna.

Ekki áhugi á endurheimt votlendis á landi sem er í annarri nýtingu
Hún segir nytjar á framræstu votlendi mikilvægan hluta af nútíma landbúnaði, enginn áhugi sé fyrir að endurheimta votlendi sem sé í annarri nýtingu og þá þurfi einnig að huga vel að aðliggjandi svæðum. Þannig þurfi í hverju tilviki að huga að því hvort endurheimt votlendis á einum stað geti með einhverjum hætti haft neikvæð áhrif og möguleika annars staðar, t.d. á landbúnað. Sunna segir þá sem sóttust eftir samstarfi við Landgræðsluna vera á mismunandi stað í ferlinu. „Á einum stað hefur þegar verið fyllt upp í skurði en aðgerðir ekki hafnar annars staðar og mat á aðstæðum ekki að fullu lokið. Í hópi samstarfsaðila eru t.d. landeigendur og sveitarfé- lög, en öll verkefnin snúast um að hækka grunnvatnsstöðu mýrlendis, annaðhvort með því að stífla skurði eða fylla upp í þá,“ segir Sunna en fram undan er einnig að skoða svæði á ríkisjörðum sem hentað gætu í þetta verk efni. Áhugasamir landeigendur geta enn haft samband við Landgræðsluna vilji þeir endurheimta votlendi á sínu landi. /MÞÞ/ Viðtal sem birtist í Bændablaðinu í júlí 2016.

Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um vel heppnaða endurheimt votlendis, Dagmálatjörn í landi Múla í Biskupstungum, sem var endurheimt árið 1998 á vegum Votlendisnefndar sem var þá starfandi. Myndina tók Sunna Áskelsdóttir.

Skip to content