Select Page

5. desember 2015. – Ástand jarðvegsauðlindar heimsins er heiti á yfirgripsmikilli samantekt eftir heimsálfum. Í tilefni árs jarðvegs 2015 lét FAO vinna skýrslu um ástand jarðvegsauðlindarinnar á heimsvísu. Hún var kynnt á fundi í höfuðstöðvum FAO í Róm þar sem haldið var upp á 5. desember, alþjóðlegan dag jarðvegs. Skýrslan var unnin af fagráði Global Soil Partnership og byggir á rannsóknarniðurstöðum og öðru efni frá 200 jarðvegsfræðingum frá 60 löndum víðsvegar um heiminn.
Skýrslan gefur heildaryfirsýn yfir núverandi ástand jarðvegsins, hvaða hlutverki hann gegnir varðandi virkni vistkerfa almennt sem og hvað ógnar helst jafnvægi og virkni jarðvegsins, sérstaklega með tilliti til landbúnaðarnota. Helstu atriði skoðuð nánar eru: jarðvegseyðing, -þjöppun, -súrnun, -mengun, yfirborðslokun, -söltun, -bleyting, næringarójafnvægi, kolefnistap og tap á lífbreytileika.

Skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að mikill meirihluti af jarðvegs heimsins, sem nýttur er til margvíslegs landbúnaðar (t.d. ræktunar- eða beitiland) hnignar og er langt frá mögulegri vistgetu. Þó hægt sé að finna afmörkuð dæmi þar sem ástand jarðvegs virðist batna sökum bættrar meðferðar þá eru mun fleiri dæmi sem sýna áframhaldandi hnignun auðlindarinnar.

Samkvæmt skýrslunni tapast árlega á milli 25 og 40 milljarðar tonna af frjósamri mold frá landbúnaðarlandi heimsins vegna ósjálfbærrar stýringar á nýtingu auðlindarinnar. Tapið dregur stórlega úr getu landbúnaðarvistkerfanna til að geyma og miðla kolefni, næringarefnum og vatni ásamt því að skerða framleiðslugetu kerfanna. Jarðvegstapið leiðir til að mynda árlega til 7,6 milljón tonna skerðingar á kornuppskeru heimsins. Höfundar skýrslunnar leggja áherslu á að ef ekki verður brugðist hratt við þessu ástandi þá er fyrirséð að kornuppskera heimsins muni skerðast um 252 milljónir tonna fyrir árið 2050, fyrst og fremst vegna rangrar meðferðar á ræktunarlandi. Til að rækta þetta magn af korni þarf um það bil 1,5 milljónir ferkílómetra af frjósömu landi eða um það bil stærð alls ræktunarlands Indlands.

Í skýrslunni kemur fram að það er misjafnt eftir heimsálfum hvaða jarðvegsógnanir eru ríkjandi. Til dæmis eru eru jarðvegseyðing, kolefnistap, næringarójafnvægi og jarðvegssúrnun talin ógna jarðvegi Afríku sunnan Sahara hvað mest, en í Evrópu eru það helst yfirborðslokun (malbik/steinsteypa), söltun, mengun, kolefnistap og næringarójafnvægi sem ógna heilbrigði og virkni jarðvegsins. Þ.P.
Sjá nánar í samantekt úr skýrslunni á eftirfarandi slóð:

ftp://ext-ftp.fao.org/nr/data/Upload/SWSR_MATTEO/Technical_Report/Web/Soil_Report_Summary_B5_012_DEF.pdf

 

Skip to content