Á dögunum auglýsti umhverfis- og auðlindaráðuneytið embætti landgræðslustjóra laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til og með 20. mars nk. Valnefnd skipuð þremur einstaklingum mun meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra, sem skipar í starfið til fimm ára
Í auglýsingu ráðuneytisins kemur fram að unnið er að endurskoðun laga um landgræðslu, meðal annars um starfsemi stofnunarinnar. Markmiðið er sagt að efla starf við gróður- og jarðvegsvernd, uppgræðslu og sjálfbæra landnýtingu. Nýr landgræðslustjóri mun fá það verkefni að framfylgja breytingunni.
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri lætur af störfum vegna aldurs þann 30. apríl næstkomandi eftir 44 ára starf. Sveinn hefur raunar unnið lengur við landgræðslustörf því hann hafði áður unnið mörg sumur hjá Landgræðslunni. Þá tók hann við starfi landgræðslustjóra við lát föðurbróður síns, Páls Sveinssonar, og var þá aðeins 26 ára. Páll hafði tekið við starfi sandgræðslustjóra af Runólfi Sveinssyni, föður Sveins, sem lést 1954. Sama fjölskyldan hefur því sinnt starfi landgræðslustjóra frá árinu 1947, eða í tæp 70 ár.
„Þetta er heilmikil breyting,“ segir Sveinn um starfslokin. Sveinn og kona hans, Oddný Sæmundsdóttir, ætla að flytja til Selfoss. „Ég ætla að lifa lífinu lifandi. Er ekki með neitt sérstakt á prjónunum, hef ekki haft tíma til að hugsa um það. En það verður í nógu að stússast við allskonar hugðarefni, ég kvíði engu,“ segir Sveinn. Meðfylgjandi mynd var tekin í Sagnagarði – fræðslu- og kynningarsetri Landgræðslunnar.