Select Page

Mosa er að finna í nánast öllum vistkerfum jarðar og hafa þeir tekið þátt í mótun og þróun þeirra í að minnsta kosti 450 milljón ár. Í dag eru til meira en 20.000 mosategundir sem flokkast í þrjár fylkingar, það er baukmosa (Bryophyta 14.000 teg.), soppmosa (Marchantiophyta 6.000 teg.) og hornmosa (Anthocerotophyta 300 teg.).

Mosavöndur Öll upptaka vatns og næringarefna fer í gegnum blöð mosans. Því fylgir rakastig í vefjum mosans raka umhverfisins. Þetta hefur mótandi áhrif á stærð mosans þar sem það er hagstæðara að vera lítil planta til að halda í vatnsmagnið innan plöntunnar.

Mosavöndur
Öll upptaka vatns og næringarefna fer í gegnum blöð mosans. Því fylgir rakastig í vefjum mosans raka umhverfisins. Þetta hefur mótandi áhrif á stærð mosans þar sem það er hagstæðara að vera lítil planta til að halda í vatnsmagnið innan plöntunnar.

Sexhundruð tegundir á Íslandi
Á Íslandi vaxa samtals um 600 tegundir, baukmosar eru algengastir (460 teg.) og því næst soppmosar (139 teg.). Aðeins ein tegund hornmosa vex á Íslandi, það er hverahnífill (Phaeoceros carolinianus) sem er staðbundinn við jarðhita.

Hafa hvorki rætur né æðakerfi
Mosar eru smávaxnar plöntur og mjúkir viðkomu því þá skortir lignín, efni sem styrkir frumuveggi æðplantna (jafnar, byrkningar, berfrævingar og blómplöntur) og gerir þeim kleift að vaxa upprétt. Mosar hafa hvorki rætur né flutningskerfi líkt og æðplöntur (sáld- og viðarvef) til að taka upp næringu og vatn úr jarðveginum. Þess í stað hafa þeir þróað með sér svokallaða rætlinga, sem þeir nota til að festa sig við yfirborð.

Mosar geta ekki geymt orku
Sólarljós og hitastig eru ásamt raka mikilvægar umhverfisbreytur fyrir ljóstillífun mosa til að framleiða orku. Mosar geta ekki geymt orkuna til lengri tíma og þurfa því að nota hana samstundis til vaxtar eða æxlunar.

Kynlaus æxlun
Fjölgun þeirra er ýmist með gróum (kynæxlun) og/eða kynlausri æxlun þar sem sprotar geta brotnað af stönglinum og náð endurvexti á nýju undirlagi. Mosar eru oftast virkastir í vexti snemma vors og síðla hausts, en þekkt er að þeir séu einnig virkir á veturna.

Mosar eru mikilvægir fyrir kolefnishringrásina
Með lífmassa sínum ljóstillífa þeir líkt og aðrar plöntur og gegna því mikilvægu hlutverki í kolefnishringrásinni. Einnig geta þeir verið í samlífi við blágrænar niturbindandi bakteríur og tekið þátt í næringarefnahringrásum. Framlag mosa í kolefnis- og næringarefnahringrásum fer þó eftir tegundum og umhverfisaðstæðum.

Hlaðmosi.

Hlaðmosi.

Merkilegar og þróttmiklar plöntur
Mosar hafa þróað með sér kerfi til að hægja, jafnvel stöðva efnaskipti sín til að verja frumur sínar í löngum frost- og þurrkatímabilum. Í fyrra fundust meðal annars mosasprotar í 1500 ára gömlum sífrera á Suðurskautslandinu sem náðu endurvexti á tilraunastofu. Þetta þykir afar merkilegt og sýnir fram á endurnýjunarþrótt mosa eftir erfið tímabil. Þrátt fyrir mikla varnarhæfileika gegn þurrki og kulda þá eru þeir afar berskjaldaðir fyrir loftmengun. Þeir hafa ekkert varnarlag á blöðum sínum og taka því upp öll efni sem á þau falla.

Ástand mosa endurspeglar loftgæði
Á Íslandi hefur magn þungmálma verið mælt í tildurmosa (Hylocomium splendens) á fimm ára fresti frá árinu 1990 til að fylgjast með loftborinni mengun. Þetta er viðurkennd aðferð sem hefur verið notuð víðs vegar um heim því magn þungmálma sem safnast fyrir í mosanum endurspegla loftgæðin þar sem hann óx. Á afar menguðum svæðum eru mosar oft mikið skemmdir og geta ekki vaxið.

Melagambri

Melagambri

Mikilvægi mosa á Íslandi
Mosar eru oft ríkjandi í gróðurfari á Íslandi, sérstaklega á nútímahrauni sem þykir afar einstakt á heimsvísu. Þar eru það gamburmosar sem eru með þeim mest áberandi. Þeir geta vaxið á næringarsnauðum holtum, hraunum, söndum og melum, í klettum og fjallshlíðum og eru því mjög mikilvægir í gróðurfrumframvindu.
Þegar þeir ná að mynda þétt yfirborðslag þá geta þeir stuðlað að jarðvegsmyndun, gert yfirborðið stöðugara og viðhaldið raka. Þannig geta lágvaxnir og gisnir mosar myndað örugg set fyrir fræ og kímplöntur og haft jákvæð áhrif á landnám og vöxt annarra plantna. Þegar mosalagið verður hinsvegar of þykkt kemur það í veg fyrir landnám annarra plantna.

Plönturnar sem falla í skuggann
Á Íslandi hefur eldvirkni raskað vistkerfum landsins og haft veruleg mótandi áhrif hvað varðar enduruppbyggingu og þróun þeirra. Mosar eru þar mikilvægur hlekkur ásamt öðrum plöntum í gróðurframvindu. Þeir eru með fyrstu landnemum á nýjum hraunum og á landi sem hefur hopað undan jökli. Á seinni stigum framvindunnar vaxa þeir í flóknari plöntusamfélögum og gegna þar mikilvægu hlutverki þar sem þeir geta stuðlað að aukinni líffræðilegri fjölbreytni. /Texti og ljósmyndir: Ágústa Helgadóttir, líffræðingur.

Skip to content