Select Page
Gæðakerfi við ýmiss konar framleiðslu hafa rutt sér til rúms á síðari árum. Tilgangurinn hefur fyrst og fremst verið að auka verðmæti, gæði og rekjanleika framleiðslunnar. Árið 2000 hófst gæðastýring í hrossarækt. Hún tekur á þáttum, sem lúta að áreiðanleika ætternis og uppruna hrossanna, velferð þeirra og verndun landgæða. Fyrsta stig vottunarinnar lýtur að ætt og uppruna og byggist á skýrsluhaldi, örmerkingu og DNA greiningu, annað stig er vottun á landnýtingu og lokastigið er góð fóðrun og umhirða. (Sjá „Gæðastýring í hrossarækt, ýmsar upplýsingar. BÍ-hrossaræktin 20. desember 2006)

Bjarni Marnonsson IMG_5536_vefur_Félag hrossabænda og Fagráð í hrossarækt áttu frumkvæði að gæðastýringu í hrossarækt og þátttaka í henni er valkvæð. Markmið landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar eru þessi helst: Að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands, að tryggja velferð hrossa og auka ábyrgð landeigenda sem vörslumanna lands.

Úttektir
Enginn opinber fjárhags- né félagslegur stuðningur er við þátttakendur í gæðakerfi hrossaræktarinnar. Þeir þurfa að kosta sjálfir úttektir vegna landnýtingarþáttarins á búum sínum og það er þeirra mál hvort og hvernig þeir geta markaðssett þátttöku sína í gæðakerfinu. Öll gæðakerfi kalla á eftirlit þar til bærra aðila og Landgræðslu ríkisins var falið að sjá um landnýtingarþáttinn, þ.e. að annast úttektir á ástandi beitarlands þátttakaenda. Úttektir fara fram á tímabilinu 15. ágúst til 15. nóvember. Loftmynd af beitarlandi er grunngagn við úttektir. Þar koma m.a. fram einstök beitarhólf og stærðir þeirra. Mat á ástandi lands er byggt á sjónmati og því gefnar ástandseinkunnir, svo sem lýst er í ritinu „Hrossahagar, aðferð til að meta ástand lands“. Úttektarreglurnar eru einfaldar og tiltölulega rúmar. Rof í gróðurþekju vegur þungt í matinu. Niðurstaða úttektar gildir fyrir yfirstandandi ár.

Ástandskönnun hrossahaga
800-IMG_0280Hrossabændur hafa oft legið undir ámæli fyrir ofnýtta haga og landníðslu. Sú umræða var áberandi á árunum milli 1990 og 2000 í kjölfar mikillar fjölgunar hrossa í landinu. Könnun á ástandi hrossahaga, sem gerð var sumrin 1995 og 1996, benti til þess að beitarástand á stórum svæðum væri óviðunandi hjá 254 aðilum. Þá voru gerðar athugasemdir við ástand og nýtingu lands í vörslu 522 aðila. Árið 1996 var hrossafjöldinn sá mesti sem verið hefur í landinu eða rúm 80 þúsund hross og hafði fjölgað um tæp 30 þúsund frá árinu 1980. Síðan hefur hrossum fækkað og samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja eru þau nú rúmlega 70 þúsund.

Sóknarfæri?
Þátttaka í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar hefur verið nokkuð stöðug en ekki eins mikil og vænst var. Árið 2015 voru þátttökubúin 39 en voru flest 46 árið 2008. Ótvírætt hefur þetta samstarfsverkefni Félags hrossabænda og Landgræðslunnar aukið vitund þátttakenda um mikilvægi góðrar beitarstýringar, leitt til meiri hagkvæmni í rekstri og bætt ásýnd lands. Margir hrossabændur eru mjög læsir á land og meðvitaðir um hvernig landnýtingu verði best hagað til að viðhalda og bæta landheilsu og uppskera. En betur má ef duga skal. Víða um land blasa við ár hvert ofsetnir hrossahagar, sums staðar er land varanlega skemmt vegna ofnýtingar, annars staðar gæti bætt beitarstýring gjörbreytt ástandi lands til hins betra á 2-3 árum. Tekið skal fram að lauslegar athuganir Landgræðslunnar sýna, að á landsvísu hefur ofbeitartilfellum fækkað frá því hrossahagakönnunin var gerð, á árunum 1995 og 1996. Væntanlega er það fyrst og fremst að þakka bættri beitarstýringu og góðum grasárum.

Mikil umræða hefur verið um langt árabil meðal hrossabænda og hestafólks um hrossarækt, velferð sýningarhrossa, sýningar og dóma. Umræða um slæma meðferð hrossabænda á beitarlandi hefur hins vegar legið að mestu niðri frá því gæðastýringarkerfið komst á. Ekki má gleymast að meirihluti íslenska hrossastofnsins kemur aldrei á keppnisvöll og þjónar eigendum sínum á annan hátt. Hagsmunir þessa stóra hóps mega ekki týnast í togstreitu um lengd hófa, hófhlífar og nokkrar einkunnakommur, í sýningum og keppnum.

Tækifæri að glatast?
800pix-IMG_0148Frumkvæði Félags hrossabænda að bættri meðferð hrossahaga árið 2000 var á sínum tíma metnaðarfullt og búgreinin tók forystu meðal bænda í betri og ábyrgari meðferð lands. Þó margt hafi áunnist virðist sem hrossabændur séu að glata þessu tækifæri til að hefja búgreinina sem slíka til vistvænnar landnýtingar. Sá ágæti hópur hrossabænda, sem tekur þátt í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar hefur ekki náð með fordæmi sínu að efla frumkvæði, metnað og landlæsi innan búgreinarinnar með þeim hætti að innganga í landnýtingarþáttinn þyki sjálfsögð meðal kollega þeirra.

Stjórn Félags hrossabænda hefur ávallt verið hliðholl þessu verkefni sínu en lítið gert því til framdráttar. Landgræðslan hefur einnig lítið kynnt landnýtingarþáttinn né hvatt hrossabændur til þátttöku í honum. Ekki þarf að efa að hrossabændur vilja hafa þessi mál í lagi og síst lenda aftur í sömu umræðu um slæma landnýtingu og á árunum 1990 til 2000.

Hvað er til ráða?
Oft þykir þægilegt að hafa hægt um sig og bíða þess sem að höndum ber. Slíkt er tæpast valkostur þegar kemur að meðferð lands og velferð heillar búgreinar. Umræða um umhverfismál og siðfræði landnýtingar er og verður til staðar. Reynslan sýnir að gott landlæsi landnotenda er undirstaða réttrar beitarstýringar og eftirsóknarvert er fyrir hrossabændur að fá viðurkenningu á að landnotkun þeirra sé með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins. Velferð hrossa og gott ástand beitarlands fer saman að öllu leyti.

Hrossabændur eru hvattir til þess að skoða hvort gæti hentað þeim að nota sér aðild að landnýtingarþætti gæðastýringarinnar. Mikilvægast er þó að allir landnotendur séu meðvitaðir um að beitarlönd þeirra eru auðlind. Auðlind, sem ber að umgangast af virðingu, tillitssemi og þekkingu. Það er góð búmennska, sem skilar búinu betri afkomu.

Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar eru jafnan reiðubúnir að skoða beitarlönd þeirra landnotenda, sem þess óska og leiðbeina um landlæsi og meðferð lands.

Gæðastýring í hrossarækt.
Árið 2015 stóðust eftirtalin hrossabú úttektir vegna landnýtingar

Bjarni Maronsson,

héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins

 

Skip to content