Select Page
Árið 1974 var þess minnst með ýmsu móti að ellefu aldir voru liðnar frá upphafi norrænnar byggðar á Íslandi. Raunar virðast fræðimenn alveg sammála um það eitt í þessu sambandi, að ekki hafi þessi byggð hafist árið 874, ef miða skal við búsetu Ingólfs Arnarsonar. Hér skakkar þó ekki svo miklu að máli skipti. Athyglisverðara var hversu lítið var í hátíðahöldum ársins minnst á þá sem námu hér land á undan norrænum mönnum. Enda þótt flestum fræðimönnum um þessi mál beri víst saman um það, að keltneskir munkar hafi hér aldrei fjölmennir verið og landnám þeirra í flestu tilliti litlu skipt fyrir hið norræna landnám, vekur það þó spurningar sem krefjast svars. Er sú eðlilegust, hvort ekki sé líklegt að þessir einsetumunkar hafi haft með sér húsdýr, og þá helst geitur og sauðfé, og þá einnig líklegt að eitthvað af þessum húsdýrum hafi sloppið úr vörslu munkanna og tímgast og fjölgað sem villifénaði í landinu áður en norrænir menn komu á vettvang. Æskilegt væri að geta svarað þessari spurningu afdráttarlaust játandi eða neitandi. Enn er þó ekki hægt að staðhæfa meira en það, að ekki hefur enn komið fram neitt, er bendi til þess að hér hafi verið fyrir villt sauðfé og/eða geitfé við upphaf norræns landnáms og þessi staðreynd bendir sterklega til þess, að það hafi a. m. k. ekki verið mikið um slíkan fénað. Hún bendir einnig til þess, að búseta keltneskra munka hérlendis hafi verið bæði fámenn og tiltölulega skammvinn. En þar með er ekki þvertekið fyrir að eitthvað hafi verið hér af fénaði er
norræn búseta hófst. Hugsanlegt er að frjógreining tengd gjóskulagarannsóknum geti gefið eitthvað ákveðnara svar um þetta.

Þetta er upphaf á grein eftir Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1976. Grein þessi er að mestu úr erindi sem flutt var í Vísindafélagi íslendinga 27. nóv. 1974. Sigurður Þórarinsson 1976

Skip to content