Select Page

Íslensk þjóð býr í eldvirku landi og hefur náð að lifa við og lifa af margbreytileika íslenskrar náttúru. Náttúruvá eða skyndileg áföll, sem valda röskun á öllu samfélaginu valda oft miklu tjóni þar sem ekki gefst tími til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Röskunin varir mun lengur en sjálfur atburðurinn og getur haft keðjuverkandi áhrif á samfélagið. Afleiðingar náttúruvár á samfélög stjórnast ekki einungis af henni sjálfri heldur líka af fólkinu sjálfu, menningu þess og aðstæðum hverju sinni. Aðlögunarhæfni ræður miklu um getu til að lifa af hörmungar. Þegar hægt er að sjá fyrir áföll eru þættir líkt og forsjálni, aðgætni og mótvægisaðgerðir mikilvægir til að lágmarka áhættu og draga úr neikvæðum afleiðingum hamfara. Þá þarf að horfa til langs tíma og taka mið af vistfræðilegum, hagrænum, menningarlegum og félagslegum þörfum núlifandi og komandi kynslóða. Mótvægisaðgerðir í anda sjálfbærni byggja á því að náttúruleg ferli og mannlegar athafnir tengjist og að lausn á hverju vandamáli sé hluti af heildrænni markmiðssetningu.

Eldgos eru tíð á Íslandi, og líkur eru á aukinni virkni í framtíðinni. Eldgos geta haft áhrif á loftslag og ferli í andrúmsloftinu, á vatnsbúskap og vistkerfi lands og sjávar. Afleiðingar þeirra felast í skaða á heilsu fólks og búfjár, auk skemmda á grónu landi og slæmum loftgæðum. Auk þessa valda þau efnahagslegu tjóni á eignum og atvinnustarfsemi, geta skaðað ýmis kerfi og innviði nútímasamfélags. Ekki er hægt að koma í veg fyrir eldgos en mótvægisaðgerðir sem auka viðnámþrótt vistkerfa geta lágmarkað tjón af völdum gjóskufalls.

Eldvirkni og váleg áhrif þeirra á gróður landsins eru algeng í umhverfissögu Íslands. Gjóskan geymdist í skjóli skóganna, en varðveittist ekki á gróðurlitlum bersvæðum. Þar fauk gjóskan um og olli frekari gróður- og jarðvegseyðingu. Gróskumikil vistkerfi með hávöxnum gróðri, líkt og skógi og kjarrlendi, þola betur áföll og draga úr neikvæðum afleiðingum gjóskufalls. Í fyrsta lagi er sá gróður líklegri til að lifa af gjóskufall. Í öðru lagi getur dregið úr langvinnum áhrifum öskustorma. Skjól gróðursins eykur hrjúfleika yfirborðs, og dregur úr afli vindsins til að valda rofi. Meiri vind þarf til að koma vindrofi af stað en þyrfti á bersvæði. Gróður styttir tímann til að ná bata og endurheimta virkni vistkerfa. Yfirborð verður fyrr stöðugt þar sem lífrænt efni fellur á yfirborðið, og virkni jarðvegsins samlagar gjóskuna við jarðveginn. Það er því brýnt langtímaverkefni að byggja aftur upp vistkerfi umhverfis stærstu eldstöðvakerfi landsins svo þau megni að sinna því hlutverki á ný
Með uppgræðsluaðgerðum má byggja upp gróskumikil vistkerfi, sem væru betur í stakk búin að mæta áföllum og gætu dregið verulega úr neikvæðum afleiðingum gjóskufalls og endurteknu foki. Slíkt er afar mikilvægt útfrá vistfræðilegum, efnahagslegum og heilsufarslegum ástæðum. Uppbygging vistkerfa landsins felur í sér fjölmarga aðra kosti fyrir samfélagið:, verndun náttúru, bætta vatnsmiðlun og aukna möguleika landnýtingar og sveigjanleika landbúnaðar.

Mikilvægt er að huga að margvíslegum þáttum: landnýtingu, skipulagi, byggðaþróun, og beitingu vísinda og tækni til að hægt sé að lágmarka skaða samfélagsins vegna eldgosa. Mikilvægt er að samræma þetta öðrum áætlunum, svo sem mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum með kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi, áætlunum um endurheimt birkiskóga, endurheimtar – og verndaráætlunum um líffræðilegan fjölbreytileika, landgræðsluáætlunum og fleiri slíkum sóknaráætlunum byggðar og landbúnaðar. Nýta þarf slíkar mótvægisaðgerðir til að styðja við byggð í nágrenni okkar öflugustu eldfjalla.

Rit Landgræðslu ríkisins nr. 1
Gróður og eldgosavá. Forvarnargildi gróðurs gegn hamförum af völdum eldgosa og eldfjallagjósku.
Anna María Ágústsdóttir, ritstjóri

Textinn hér að ofan er ágrip en ritið í heild má nálgast hér.

 

Skip to content