Select Page

21.11.2016 / Vinnufélagi okkar og vinur Guðmundur Stefánsson sviðsstjóri varð bráðkvaddur aðfaranótt laugardags. Guðmundur var fæddur 10. apríl 1952 og var því 64 ára er hann lést.

Guðmundur var menntaður landbúnaðarhagfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum í Ási. Að námi loknu starfaði hann hjá Bændasamtökunum en varð síðan framkvæmdastjóri Ístess hf. og síðan fóðurverksmiðjunnar Laxár. Guðmundur var bæjarfulltrúi á Akureyri 1994-97 og sat m.a. í bæjarráði. Hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1991-1995. Guðmundur var ráðinn hagfræðingur Bændasamtakanna 1997. Hann varð framkvæmdastjóri Lánasjóðs landbúnaðarins 1999 til 2005 og útibússtjóri Kaupþings á Selfossi. Guðmundur kom til starfa sem sviðsstjóri hjá Landgræðslunni árið 2007 og stýrði Landverndarsviði stofnunarinnar.

Guðmundur var góður vinnufélagi sem gustaði af hvort sem var í starfinu eða í viðburðum starfsmannafélagsins. Víðtæk reynsla Guðmundar af fjölbreyttum stjórnunarstörfum komu sér oft vel og alltaf var stutt í glettnina og til hans var gott að leita ef eitthvað bjátaði á.

Guðmundur skilur eftir sig stórt skarð í starfsmannahópnum.

Starfsmenn Landgræðslunnar votta eiginkonu Guðmundar, Hafdísi Jónsdóttur, sonum þeirra, Þórarni Ægi og Stefáni Hrannari og fjölskyldum þeirra samúð og þakka fyrir að hafa fengið að hafa Guðmund að félaga.

Skip to content