Bændur í Skaftafelli í Öræfum gáfu Sandgræðslu Íslands nokkuð magn af birkifræi haustið 1938. Því var sáð vorið eftir við hraunbrún norðan við Gunnarsholt. Var það svæði síðar var nefnt Gunnlaugsskógur. Einnig var hluta þess sáð í landgræðslusvæði við Stóra Klofa í Landsveit, þar sem heitir Tjarnarlækur. Aftur kom fræsending frá bændum haustið 1944 og var því sáð norðar við fyrrnefnda hraunbrún og er til kvikmynd af þeirri sáningu.
Gunnlaugur sáði því vorið eftir í grastó við ógróna hraunbrún norðan við Gunnarsholtið þar sem landnámsbærinn stóð fram eftir öldum. Þar með var sáð í fyrsta landgræðsluskóginn á Íslandi. Óx þar upp birkikjarr sem sáði sér og nefnist nú Gunnlaugsskógur.
Sagan endurtók sig haustið 1944 og enn fékk Gunnlaugur fræ. Til er í Gunnarsholti 16 mm kvikmynd sem sýnir þegar Gunnlaugur er að sá birkifræinu í Gunnlaugsskóg og eins þegar hann er að flytja út plöntur úr sáningunni frá 1939. Á þessum árum var Jón Egilsson ábúandi í Gunnarsholti, síðar bóndi á Selalæk. Í dagbókum hans er greint frá því að hann fór árlega að planta út trjám úr þessum sáningum í nágrenni þessara fyrstu tveggja lunda.
Runólfur og Páll Sveinssynir, sandgræðslu- og landgræðslustjórar, plöntuðu á árunum 1948 – 1954 all nokkrum barrtrjátegundum í yngri birkilundinn og í hraunbrúnina í nágrenninu. Má þar nefna sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), skógarfuru (Pinus sylvestris), broddfuru (Pinus aristata), fjallafuru (Pinus mugo), einir (Juniperus communis) og fjallaþin (Abies lasiocarpa). Loðvíðir (Salix lanata) og gulvíðir (Salix phylicifolia) festu rætur neðan við hraunbrúnina og eins virðist birkið hafa sáð sér neðan brúnar á meðan landið þar var lítt gróið.
Það er hins vegar ekki fyrr en farið er að dreifa áburði og grasfræi á hraunið, með fjármagni frá Þjóðargjöfinni 1974-1978, að fræ úr skóginum nær að festa rætur í hrauninu. Síðan hefur skógurinn breiðst hratt út í þá átt sem land hafði verið undirbúið með uppgræðslu. Neðan hraunbrúnar er landið nú víðast algróið og nokkuð votlent. Þar nemur birkið ekki land. Fræ af íslenska víðinum hefur hins vegar fokið langt frá skóginum og nemur land í eldri uppgræðslusvæðum. Plöntur hafa fest rætur af fræi frá sitkagreni og furu. Þinurinn hefur aðeins breitt úr sér þegar neðstu greinar hans hafa skotið rótum.
Allnokkrar rannsóknir hafa farið fram í Gunnlaugsskógi þ.á.m. verkefni Dr. Ásu Aradóttur um landnám birkis, Berglindar Orradóttir um frostlyftingu o.fl.
Árið 1983 gaf Skógrækt ríkisins í tilefni af 75 ára afmæli stofnananna, Landgræðslu ríkisins, alls um 18.000 lerkitré (Larix sibirica) í mosabandi og 7.000 stafafurur (Pinus contorta) í bökkum. Nær öll lerkitrén drápust strax á fyrsta ári, en stafafururnar lifðu vel og vaxa þarna með ágætum.
Birki- og víðifræ berst frá skóginum inn á eldri landgræðslusvæði og skógurinn heldur því áfram að breiðast út á þeim svæðum sem friðuð eru fyrir beit.
Ítarefni:
Breytingar á þekju skóga norðan Næfurholts á Rangárvöllum 1987-2012.
Að lesa og lækna landið