5.12.2017 / Hagagæði er samstarfsverkefni Félags hrossabænda og Landgræðslu ríkisins, um landnýtingu og úttektir hrossahaga. Stofnað var til verkefnisins á yfirstandandi ári. Hagagæði eru að nokkru leyti framhald af landnýtingarþætti Gæðastýringar í hrossarækt, sem varð til árið 2000. Gæðastýringin var lögð niður á árslok 2016. Verkefnið er í umsjá Landgræðslunnar og annast starfsfólk hennar úttektir á beitarlandi þátttakenda. Árið 2016 voru 40 bú þátttakendur í landnýtingarþættinum. Tvö þeirra eru ekki með í Hagagæðum en sex ný bú stóðust úttektarkröfur og gerðust þátttakendur í verkefninu. Samtals eru því 44 þátttakendur í Hagagæðum á fyrsta starfsári verkefnisins. Sjá nöfn búa.
Megintilgangur Hagagæða er að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands, að tryggja velferð hrossa og auka ábyrgð landnotenda sem vörslumanna lands. Einnig að auka umhverfisvitund landeigenda og landnotenda.
Þátttakendur geta orðið hrossabændur og aðrir, sem halda hross í atvinnuskyni eða til brúkunar í tómstundum. Einnig sveitarfélög og hestamannafélög, sem eiga eða hafa umsjón með hrossabeitarhólfum til almenningsnota. Þá eru stóðhestahólf sérstök úttektareining og boðið er upp á vöktun á beitarástandi þeirra. Miklu skiptir að beitarnýting hrossabænda sé sjálfbær og þeir, sem standast úttektarkröfur Hagagæða fá það viðurkennt opinberlega. Slík viðurkenning er í takt við kröfur nútímans um góða umgengni um land og gróður og vekur athygli á þátttakendum verkefnisins og starfsemi þeirra.
Eðli málsins samkvæmt er fyrsta starfsárið, eins konar tilraunaár. Á næsta ári verður farið yfir reynsluna af verkefninu og úttektarreglur og aðrir þættir verkefnisins endurskoðaðir og gerðar breytingar, ef þurfa þykir. Lagt var upp með að þátttakendur í fyrrum landnýtingarþætti Gæðastýringarinnar yrðu sjálfkrafa þátttakendur í Hagagæðum, enda stæði vilji þeirra til þess og beitarland viðkomandi uppfyllti úttektarkröfur verkefnisins.