Select Page

17. september 2015 / Starfsmenn Landgræðslunnar (Lr), þau Kristín Svavarsdóttir, Jóhann Þórsson og Ágústa Helgadóttir sóttu nýverið heimsþing vistheimtarfræða (Society for Ecological Restoration), sem haldið var í Manchester á Englandi. Auk þess sóttu þingið starfmenn Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landbúnaðarháskólans (LbhÍ) og nokkrir fyrrum nemendur Landgræðsluskólans. Á heimsþingið komu um 800 vísindamenn og nemendur allstaðar að úr heiminum.

Starfsmenn Landgræðslunnar fluttu nokkur erindi á ráðstefnunni og stóðu m.a. að sérstöku málþingi um aðstæður og vistheimt á illa förnu landi, ásamt þekktum vísindamönnum frá Ástralíu og Bandaríkjunum. Vistheimtarfræði eru meðal þeirra fræðigreina sem vaxa nú hvað hraðast og ljóst að aukin skilningur er fyrir endurheimt landkosta hjá flestum þjóðum. Þetta viðfangsefni tengist sáttmálum Sameinuðu þjóðanna um líffjölbreytileika, loftslagsmál og varnir gegn eyðimerkurmyndun, þar sem vistheimt er æ mikilvægari.

Árangur Íslendinga í landgræðslu og vistheimt á mikið erindi á ráðstefnu sem þessa og myndast þar mikilvæg tengsl við erlenda vísindamenn á þessum sviðum. Einnig sést vel hve aðstæður á Íslandi eru um margt líkar því sem gerist á þeim svæðum jarðar þar sem hnignun landkosta hefur verið hvað alvarlegust.

Erindi fjölluðu m.a. um beit til að minnka útbreiðslu skógar á vel grónum svæði (þar sem skógurinn bókstaflega tekur yfir landið), um leiðir til að auka útbreiðslu skógar þar sem þeir hafa mjög látið undan síga, en mörg erindi frá hinum ýmsu heimshlutum fjölluðu um mikilvægi þess að létta beit á illa förnum svæðum til að endurheimta landgæði.

Upplýsingar um ráðstefnuna eru á vefsíðunni www.SER2015.org

Smella hér til að sjá grein sem Dr. Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, birti á heimasíðu sinni í kjölfar þingsins.

Skip to content