Miklar áskoranir bíða okkar í umhverfismálum heimsins og velferð okkar jarðarbúa er komin undir því hvernig til tekst með að leysa þær. Mest er talað um loftslagsbreytingar af manna völdum. Þær eru mál málanna í dag. Minna fer hins vegar fyrir umræðu um ástand lands í heiminum og þá staðreynd að jarðvegur og ástand vistkerfa ráða miklu um það hvort það tekst að sporna nægjanlega gegn hlýnum jarðar – og einnig hvort það takist að framleiða næg matvæli til að fullnægja þörfum okkar í framtíðinni. Við stöndum frammi fyrir mestu áskorun allra tíma.
Hnignun jarðvegs og gróðurs er ein mesta ógn jarðarbúa
Frjósamt land er undirstaða velferðar okkar. Framleiðsla á meira en 90% af fæðu manna og fóðri búfjár er komin undir hinum takmarkaða jarðvegsforða heimsins. Jarðvegur er því grundvöllur menningarsamfélags allra þjóða.
Mannkynssagan er hins vegar saga baráttu gegn eyðingu jarðvegs. Í þúsundir ára hafa skipst á ris og hrun menningarríkja. Sýnt hefur verið fram á að hnignun landkosta hefur orðið þeim flestum að falli.
Manninum hefur ekki verið gefið að lifa í sátt við náttúruna, hann hefur eytt skógum, ofbeitt jörðina og brotið of viðkvæmt land til ræktunar.
Hættumerkin blasa við. Fyrir nokkrum árum var talið að um fimm milljarðar tonna af jarðvegi glötuðust á ári hverju, eða um tonn á hvert mannsbarn í heiminum. Nú er hins vegar talið að jarðvegseyðingin sé í reynd miklu meiri og að minnsta kosti 20 milljarðar tonna af jarðvegi glatist á ári vegna rofs af mannavöldum. Þetta eru uggvænlegar tölur og spurningin um það hvort nóg verði til að borða verður æ áleitnari.
Þetta sagði Andrés Arnalds í upphafi erindis sem hann flutti í Skálholti og nefndi Hver á að gæta velferðar landsins?
Erindið var flutt á málþingi um umhverfismál – “Af jörðu ertu kominn…” í Skálholti 10. nóvember 2015
Sjá erindið í heild