23. nóvember 2015. Nýlega kom út grein eftir Önnu Maríu Ágústsdóttur, Svein Runólfsson og Þórunni Pétursdóttur í bók sem ber heitið Innovative Strategies and Policies For Soil Conservation. Bókin er í ritröðinni Advances in GeoEcology, á vegum International Society of Soil Science, og Catena Verlag sem gefur bókina út.
Greinin ber heitið Icelandic Soil Conservation in the European Context: Laws, Policies and Approaches. Þar er fjallað um aldarlanga baráttu Íslendinga við landhnignun og landeyðingu og hún sett í alþjóðlegt samhengi. Jarðvegurinn, þessa örþunna skán á yfirborði jarðarinnar, er sá grunnur sem allt líf byggir á. Moldin er einnig samnefnari helstu umhverfismála dagsins í dag og það sem tengir saman stóru umhverfissáttmálana: um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD), um líffræðilega fjölbreytni (CBD), um loftlagsbreytingar (UNFCCC), og Ramsar samninginn um verndun votlendis.
Sömu ferlar og orsakir, sem ollu landhnignun á Íslandi síðustu árhundruðin, eru að valda samskonar vandamálum um heim allan. Álag á vistkerfi dregur úr landgæðum og minnkar getu vistkerfa til að bregðast við röskun og dregur úr möguleikum þeirra á að ná sér eftir áföll. Lausnir við landhnignun á Íslandi eru líka sameiginlegar með öðrum samfélögum. Á Íslandi og í Evrópu er skortur á sterkri löggjöf um jarðvegsvernd. Rætt er um leiðir við slíkar aðstæður til að ná fram árangursríkri jarðvegsvernd og sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda sem er mikilvægt að tileinka sér svo við og börnin okkar eigum góða framtíð í vændum.
Tilvitnun í ritið:
Ágústsdóttir A. M., Runólfsson S. & Pétursdóttir Þ. 2015. Icelandic Soil Conservation in the European Context: Laws, Policies and Approaches. Í: Fullen M. A. et al. (ritstj.), Innovative strategies and policies for soil conservation, Advances in GeoEcology vol. 44, Catena VERLAG GMBH, ISBN 978-3-923381-62-3, bls 91-99.