Jarðvegsrof verður þegar gróður lætur undan síga og gróðurþekjan opnast. Gróðurkápa verndar landið fyrir jarðvegsrofi, en á gróðurvana landi eiga vindur og vatn greiða leið að yfirborði jarðvegs og mikil hætta verður á að hann blási eða skolist burt. Jarðvegsrof markar því ásýnd landsins og getur á ótrúlega skömmum tíma breytt frjósömum landsvæðum í kaldranalegar auðnir.
Jarðvegur er undirstaða fæðuframleiðslu jarðarbúa og skynsamleg nýting jarðvegs og gróðurs er forsenda velferðar mannsins. Það er því skylda okkar að koma í veg fyrir að gengið sé á gróður landsins en nýta það með sjálfbærum hætti, vinna að endurheimt þess gróðurlendis sem tapast hefur og tryggja friðun og framgang skemmdra vistkerfa þannig að þau nái að endurnýja sig.
Eyðing gróðurs og hraðfara jarðvegsrof hér á landi hefur ógnað og ógnar jafnvel enn búsetu. Það er því forgangsverkefni Landgræðslu ríkisins að stöðva jarðvegseyðinguna og að græða upp örfoka land.
Ítarefni:
Skýrslan Jarðvegsrof á Íslandi
Að lesa og lækna landið. Stórfróðlegt rit um vistfræði, landnýtingu og aðferðarfræði við mat á ástandi lands og vistheimt á breiðum grunni.