Select Page

9. júní 2015 13:28. | Vorið hefur verið óvenju kalt svo gróður er nú mun seinni til en í venjulegu árferði. Því er nauðsynlegt að seinka beit á úthaga eins og tök eru á til að vernda gróður og forðast gróðurskemmdir. Gróður er afar viðkvæmur fyrir beit þegar hann er að lifna við á vorin og koma upp laufblöðum sem ljóstillífa, sem er forsenda áframhaldandi vaxtar yfir sumarið. Hvort nýgræðingur fær að vaxa á þessum tíma hefur mikið að segja um heildarsprettu sumarsins.

Það er því mikið í húfi að hlífa landi í upphafi sprettu og alveg sérstaklega í köldum árum eins og nú er. Beit sem hefst of snemma kemur fyrst og fremst niður á frjósemi landsins, veldur minni uppskeru, rofdílar geta myndast, rætur rýrnað og landið ber færri skepnur og þar með þarf stærra land til að uppfylla næringarþarfir.

Ekki ætti að hefja beit fyrr en land er orðið grænt yfir að líta og greinilegt að blaðvöxtur er kominn vel á veg. Öruggast er að hefja beit á gömlum túnum og frjósömum mýrum sem helst hafa farið undir vetur með sinu. Hlífa þarf viðkvæmara og rýrara landi fram á sumar sem og brattlendi. Hrossaeigendur eru því eindregið hvattir til að seinka sleppingu hrossa eins og kostur er og huga vel að ástandi hagans áður en þeir sleppa.

Skip to content