Select Page

17.8.2018 / Í vor dreifði Bryndís Marteinsdóttir, verkefnis stjóri GróLindar, staðsetningartækjum til sauðfjárbænda sem þeir settu á lambær. Síðustu tíu tækin voru sett á lambær í eigu Kristins Guðnasonar í Árbæjarhjáleigu. Alls voru 118 staðsetningartæki sett á lambær sem ganga um afréttir og úthaga landsins í sumar og sumarið 2019. Staðsetning ánna er skráð á 2–6 tíma fresti.

Hér má sjá kort sem sýnir staðsetningu kinda í verkefninu GróLind . Kortið er tekið af heimasíðu telespor.org og byggir á korti frá Landmælingum Íslands. Þarna má sjá hvar kindurnar voru staddar rétt eftir hádegi föstudaginn 17. ágúst.

Bryndís segir að gögnin muni gefa verðmætar upplýsingar. „Við fáum upplýsingar um það hvar lambærnar halda sig og stærð svæða sem kindurnar nýta. Þessum upplýsingum er svo varpað stafrænt á gróðurkort af Íslandi. Þar með vitum við betur í hvernig gróðurlendi kindurnar sækja,“ segir Bryndís og bendir á að lítið sé vitað um beitaratferli sauðfjár í sumarhögum á Íslandi.

„Þar sem úrtakið er stórt og fylgst verður með sauðfé víða um land, verður hægt að leggja mat á hversu almennar niðurstöðurnar eru og hvort beitaratferli sauðfjár sé breytilegt, t.d. eftir ástandi lands. Niðurstöðurnar munu nýtast til að bæta beitarstjórnun á Íslandi,“ segir Bryndís. Hægt verður að tengja niðurstöður mælinga við þunga lamba og áa. Þar með fást vísbendingar um hvort tengsl séu á milli þrifa sauðfjár annars vegar og hvar það gengur hins vegar.

Bryndís segir að aukin vísindaleg þekking og samvinna bænda og vísindamanna sé undirstaða beitarstjórnunar. Rannsóknin sem hér um ræðir er samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins og Landssamtaka sauðfjárbænda en styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Rannsóknin mun nýtast beint til að meta áhrif sauðfjárbeitar á mismunandi beitarland og við að þróa aðferðir til að stuðla að sjálfbærri beit sauðfjár.

GróLind er verkefni sem ætlað er að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna. Verkefnið er byggt á samkomulagi milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Landgræðslu ríkisins og Landssamtaka sauðfjárbænda. Landgræðsla ríkisins er með yfirumsjón verkefnisins en verkefnið er fjármagnað í gegnum búvörusamningana og með eigin framlagi Landgræðslu ríkisins.  Hér geta áhugasamir lesið meira um verkefnið.

Skip to content