Select Page

7. desember 2015. Kolefni (C) er merkilegt frumefni. Í formi koltvísýrings, CO2, er það einn meginorksakavaldurinn í þeirri hlýnun loftslags af mannavöldum sem gæti ógnað velferð jarðarbúa á komandi árum. Þegar kolefnið er bundið í lífræn efni er það hins vegar undirstaða lífs á jörðu, einhver mikilvægasta auðlind jarðarbúa.Undanfarið hefur nær hvert ár verið hlýrra að meðaltali á jörðinni en það sem á undan er gengið. Magn koltvísýrings í lofthjúpnum vex stöðugt og nemur um 2/3 af uppsöfnun þeirra gróðurhúsalofttegunda sem ógna jafnvæginu í loftslagi jarðar. Um 2/3 af uppsöfnun CO2 í andrúmslofti frá 1850 stafar frá bruna jarðefnaeldsneytis á síðustu 150 árum. Það vill hins vegar gleymast í umræðunni að 1/3 af þessari CO2 mengun stafar frá breyttri landnotkun, eyðingu skóga, landhnignun og uppblæstri. Það má því líta á koltvísýringinn sem auðlind á villigötum.

Binding kolefnis er áríðandi verkefni
Tvær meginleiðir eru til að koma í veg fyrir hættu á loftslagsbreytingum af mannavöldum; draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum og skila hluta af koltvísýringnum aftur til jarðar með aukinni gróðurræktun. Gróðurinn umbreytir koltvísýringnum í lífræn efni sem geymist að stórum hluta í jarðvegi og er undirstaða frjósemi jarðar. Styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum er nú þegar það hár að þessi leið er óhjákvæmileg samhliða því sem dregið er úr loftmengun.

Landhnignun og uppblástur hafa leikið Ísland grátt í aldanna rás. Það táknar að gríðarlegt kolefni hefur tapast úr íslenskum vistkerfum, e.t.v. 400 sinnum meira en nemur árlegri losun gróðurhúsalofttegunda. Enn losnar gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið frá Íslandi, m.a. vegna rotnunar lífræns efnis á illa förnu landi.

Þessu kolefni þarf að skila til baka til að bæta vistkerfi landsins. Ávinningurinn er margþættur og hagnaður hins íslenska samfélags mikill af landbótum, svo sem landgræðslu og skógrækt, er mikill bæði í bráð og lengd. Með landbótum vex frjósemi landsins. Bæta má vatnsmiðlun, jafna sveiflur í vatnsrennsli og auka framleiðni í laxveiðiám. Meðal fjölmargra annarra þátta má nefna betri skilyrði til útivistar, ferðamennsku, skjól, dýralíf og veiði, aukna tegundafjölbreytni og virðisauka af landi. Kolefnisbinding m.t.t. loftslagsverndar eru svo verðmæti út af fyrir sig, aukavinningurinn sem getur orðið mjög verðmætur á kvótamörkuðum í framtíðinni.

Hve mikið er hægt að binda
Rannsóknir hafa leitt í ljós að kolefnisbinding er mikil hér á landi, bæði með landgræðslu og skógrækt. Um 60-80% af kolefninu binst í jarðvegi, jafnvel meira í landgræðslu og því valda hinir sérstæðu eiginleikar eldfjallajarðvegsins auk þess sem rotnun lífræns efnis er hægari en í heitar löndum. Breytileiki í kolefnisbindingu með landgræðslu er mikill, eða 1,5 – 5,5 tn CO2 á hektara, skv. grein Ólafs Arnalds í riti Fræðaþings landbúnaðarins 2007. Að meðaltali má e.t.v. reikna með um 2,2 tn bindingu á ári / ha og slík árleg binding heldur áfram mjög lengi, um hundruð ára uns nýju jafnvægi í kolefnisbúskap landsins er náð.

Ljóst er að möguleikar til kolefnisbindingar eru miklir á Íslandi, auk þess sem mikilvægt er að draga úr þeirri miklu losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað í tötróttu landi. Þannig gæti landgræðsla og / eða ræktun skóga á um 1 milljón ha lands á Íslandi t.d. bundið meira kolefni en sem nemur allri losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi af mannavöldum. En, hvaða land á ekki að græða, hvar á að rækta skóg og með hvaða tegundum? Um slíkt eru skiptar skoðanir. Því þurfa stórtæk áform um landbætur að byggjast á vandaðri undirbúningsvinnu til að tryggja þjóðarsátt um slík verkefni. /Andrés Arnalds, Landgræðslu ríkisins.

Skip to content