Select Page

„Auðvitað vildi ég að við hefðum náð miklu lengra í átt til sjálfbærrar landnýtingar búfjár á öllu landinu. Stærsta hindrunin á þeirri vegferð tel ég vera að við tölum alls ekki „sama tungumálið“. Það er himinn og haf á milli þess hvernig margir bændur og ykkar samtök og Landgræðslan skilja og skilgreina hugtakið „sjálfbær landnýting“. Skilgreiningin er ekki umsemjanleg – Íslendingar eru aðilar að alþjóðlegum samningum um sjálfbærni viðmið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið fer með framkvæmd þeirra mála hér á landi. Algjört frumskilyrði er að við tölum sama tungumálið þegar við fjöllum um nýtingu lands,“ sagði Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri þegar hann ávarpaði aðalfund Landsamtaka sauðfjárbænda í nýliðinni viku.
saudfjarbaendur_MG_4480
Fyrsta verkið var skoðun á beitarþoli á Rangárvallaafrétti

„Það er margs að minnast frá áratuga samstarfi mínu við sauðfjárbændur – ég tel að fyrstu samskipti mín við sauðfjárbændur hafi verið um 1970, þ.e. fyrir 45 árum síðan, þegar ég var enn í háskólanámi og var að skoða hugsanlegt beitarþol á Rangáravallaafrétti og ræddi við nágranna mína í Gunnarsholti um hvernig við gætum nú friðað þessar auðnir til fjalla. Því var nú vægast sagt illa tekið og þegar ég fékk marga þeirra með mér í gróðurskoðun inn á afréttinn um sumarið 1971 – þá varð það nú mér til lífs- og að þeir litu ekki á mig sem algjöran fáráð, að ég hafði sem ráðsmaður haft ábyrgð á langstærsta sauðfjárbúi sem rekið hafði verið á Íslandi með um 1650 vetrarfóðrað fjár – að mestu leiti á landi sem grætt hafði verið upp úr auðnum og sandi. Þessi reynsla af búrekstri hefur alla tíð reynst mér afar vel í samstarfinu við bændur.

Æ síðan hef ég í minni stuttu embættistíð átt mikil og yfirleitt afar góð samskipti við sauðfjárbændur og minnist þeirra samskipta með gleði – þó til séu undantekningar frá því.

Frábær uppgræðslustörf
Það hefur gríðarlega mikið áunnist í gróðurvernd þökk sé okkar samskiptum í áranna rás – upprekstur hrossa á afrétti heyrir nú að mestu sögunni til og beitartími sauðfjár á illa förnum afréttum hefur verið mikið styttur. Sauðfjárbændur hafa um langt árabil unnið frábær uppgræðslustörf á illa förnum afréttum og sínum heimalöndum og leggja mikið af mörkum og ómælda vinnu við að græða landið, með frábærum árangri. Ég leyfi mér að þakka það af heilum hug, fyrir hönd landsins okkar.

Auðvitað vildi ég að við hefðum náð miklu lengra í átt til sjálfbærrar landnýtingar búfjár á öllu landinu. Stærsta hindrunin á þeirri vegferð tel ég vera að við tölum alls ekki „sama tungumálið“. Það er himinn og haf á milli þess hvernig margir bændur og ykkar samtök og Landgræðslan skilja og skilgreina hugtakið „sjálfbær landnýting“. Skilgreiningin er ekki umsemjanleg – Íslendingar eru aðilar að alþjóðlegum samningum um sjálfbærni viðmið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið fer með framkvæmd þeirra mála hér á landi. Algjört frumskilyrði er að við tölum sama tungumálið þegar við fjöllum um nýtingu lands.

Framundan eru miklir ögurtímar í framleiðslu sauðfjár og jafnvægi byggðar í landinu – nýir umdeildir búvörusamningar, hætta á offjölgun sauðfjár – jafnvel á afréttum þar sem síst skyldi og vaxandi neikvæð umræða vegna hættu á offramleiðslu.

Gæðastýringin er á vissan hátt fjöregg sauðfjárbænda
Mín skilaboð til ykkar ágætu félagar er að ég bið um að þið bændur og forsvarsmenn ykkar gætið enn betur að ykkar langdýrmætustu auðlind, þ.e landinu og kostum þess. Það má einnig segja að gæðastýringin sé á vissan hátt ykkar fjöregg. Það er því afar mikilvægt að framkvæmd hennar sé með trúverðugum hætti.

Að lokum. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ykkur fyrir frábært og oft gefandi samstarf. Ég tel mig hafa eignast marga góða vini og félaga í ykkar hópi og ég vona að sú vinátta haldist, þó svo að okkur greini á í ýmsum mikilvægum málum og þótt ég hverfi nú senn til annarra verkefna. Ég óska sauðfjárbændum alls hins besta í sínum verkefnum og vona að ykkur gangi allt í haginn hér í ykkar þýðingarmiklu störfum á aðalfundinum,“ sagði Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri að lokum. Millifyrirsagnir eru verk umsjónarmanns heimasíðu Lr.

Skip to content