Select Page

22.02.17 / Árni Bragason, landgræðslustjóri segir stór svæði hrópa á aðgerðir. Það sé vel hægt að gera fjórfalt betur en nú er gert og ýmis vannýtt tækifæri, til dæmis í allri seyrunni sem skolað er út í sjó. Þá bendi nýlegar rannsóknir til þess að uppgræðsla skili meiri ávinningi en gengið hefur verið út frá. Uppgræðslan er þó eilíf barátta, á einum stað er landið grætt og annars staðar fýkur það með tilheyrandi kolefnislosun. Þetta kemur fram í frétt í RÚV í gær.

Heilmikil geta
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál á Íslandi kemur fram að með því að fjórfalda aðgerðahraða í skógrækt og landgræðslu og ráðast í endurheimt votlendis megi minnka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi verulega.

arni_bragason_landgrstj_jan_2017_vefur_„Það vantar heilmikið upp á að við gerum eins og menn hafa lagt á ráðin um, fjármagnið hefur ráðið því en getan hjá Landgræðslunni og Skógræktinni er heilmikil,“ Segir Árni Bragason, landgræðslustjóri í viðtalinu við RÚV. Hann telur að það sé vel hægt að fjórfalda aðgerðahraða. „En það auðvitað krefst þess að menn skipuleggi sig og það komi fleiri að en þessar stofnanir. Ef við horfum til þess sem Landgræðslan er að gera þá eru mörg hundruð þúsund hektarar lands sem hreinlega hrópa á aðgerðir. Í flokki þar sem aðgerða er þörf eru tæplega 800.000 hektarar. Þetta er land sem hægt væri að fara í á næstu árum, við höfum kortlagt þessi svæði, vitum hvað þarf að gera.“

Hvar viljum við rækta korn?
Sum svæðanna sem hægt væri að græða eru í eigu ríkisins og þarf ekki að semja um.  „Við erum með tilbúið land til að taka við meiri aðgerðum, það er auðvitað fjármagnið sem hefur takmarkað.“ Í öðrum tilvikum þyrfti að ganga frá samningum varðandi eignarhald. Þá segir Árni mikilvægt að fram fari umræða um hvað skuli gera við landið áður en ráðist er í aðgerðir. Þetta sé skipulagsmál og íbúar sveitarfélaga þurfi að koma að stefnumótuninni.

„Í aðalskipulögum sveitarfélaga eru skilgreind landgræðslusvæði eða landbúnaðarsvæði og þau þarf kannski að skoða, hvað ætlum við okkur með þetta. Við verðum að átta okkur á því að við viljum rækta mat, við viljum rækta korn með hækkandi hitastigi, það er hægt að rækta meira á Íslandi vegna hækkandi hita. Við þurfum að meta hvar er hentugt land til akuryrkju og hvað verður framtíðarland til akuryrkju á Íslandi, það er ekkert alls staðar sem við viljum sjá skóg. Þetta eru skipulagsmál sem við þurfum að skoða.“

Tækifæri í seyru og samvinnu
En hvaða aðgerð telur hann best til þess fallna að binda gróðurhúsalofttegundir? Árni segist horfa til samstarfsverkefna Skógræktar og Landgræðslu, þess að taka landgræðslusvæði og rækta á þeim birkiskóg. Hekluskógar eru gott dæmi um slíkt samstarf. Stofnanirnar hafa hug á frekara samstarfi af þessum toga og hafa sent ráðuneytinu minnisblað. „Við óskum eftir því að það verði sett veruleg vinna í að gera slíkar áætlanir.“

Árni bendir líka á vannýtt tækifæri. Sóun á áburði er honum ofarlega í huga, miklu magni af seyru er sóað á ári hverju. Henni er dælt út í sjó eða hún urðuð. „Það fer svipað af áburðarefnum í gegnum holræsakerfi Reykjavíkur út í Faxaflóa eins og allur sá áburður sem við erum að flytja til landsins á hverju ári.“ Síðastliðin ár hafa fimm sveitarfélög tekið þátt í þróunarverkefni sem lýtur að því að nýta seyruna til að græða upp land og Árni vonar að fleiri bætist í hópinn.

Myndi kosta ríkið um milljarð árlega
Árni telur að alls myndi það kosta ríkið um milljarð á ári að fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og skógrækt. Í skýrslu Hagfræðistofnunar er áætlað að það kosti um 2500 krónur að binda tonn af koltvísýringi með skógrækt og 2700 krónur að binda tonn af koltvísýringi með því að græða upp land. Árni segir að draga megi úr kostnaði með því að taka fyrir stór svæði í einu. Landgræðslan er í samstarfi við 550 bændur um allt land og þeir hafa komið með mótframlag. „Ef við settum meira fjármagn inn í gegnum þau sambönd eða samstarf þá gætum við líka náð árangri.“

En það er ekki nóg að framkvæma, það þarf líka að sýna fram á árangur. Í Speglinum í síðustu viku greindi verkefnisstjóri votlendisverkefnis Landgræðslunnar frá því að ríkið hefði einungis varið fjármagni til framkvæmda ekki til rannsókna á áhrifum þeirra, eins og til hafi staðið. Nú er starfsfólk Landgræðslunnar að vinna grunnrannsókn á loftslagsáhrifum landgræðslu og er niðurstaðna að vænta síðar á þessu ári. Þetta er flókin rannsóknarvinna. Sexhundruð ólíkir uppgræðslureitir hafa verið rannsakaðir. Árni segir stofnunina ekki hafa fengið sérstakt fjármagn til rannsóknanna. „Við höfum hreinlega forgangsraðað til þess að fá þetta því við teljum þetta algera forsendu fyrir því að við getum verið trúverðug í þeim aðgerðum sem við erum að stunda.“
Hann segir að það krefjist áframhaldandi rannsókna og vöktunar, eigi þessar aðgerðir að verða hluti af loftslagsbókhaldi Íslands.

„Við vitum nógu mikið til þess að við þorum að fullyrða að þær tölur sem við erum að birta, þær eru svona frekar varfærnar. Við erum að vona að það sé heldur meira sem binst en þær tölur sem við höfum verið að nota. Við höfum viljað fara varlega í þessu því við viljum geta staðið við það sem við segjum og viljum standast þá skoðun sem mun verða.“

Skógur geti komið í stað olíu
Enn er óljóst hversu mikið við getum reitt okkur á endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt þegar kemur að því að standa við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Líklega verður sett á það eitthvert þak. Árni telur að þessar aðgerðir séu vel þess virði jafnvel þó þær myndu ekkert telja í bókhaldinu. „Ef við horfum bara til þess að það að bæta land, þá erum við að skapa verðmæti til framtíðar því góður jarðvegur er forsenda þess að við getum ræktað og haft góð akurlendi. Skógur er verðmæti sem við erum að byggja upp því allt sem hægt er að vinna úr olíu er hægt að vinna úr skógi. Það er fjöldi landa að vinna að slíkum málum. Spennandi verkefni í Svíþjóð og Finnlandi. Í Svíþjóð eru þúsund manns að vinna í þróunarvinnu á því að sjá hvaða leiðir hægt er að fara með timbur yfir í alls konar efnavörur, fiskifóður og ýmislegt fleira.“

Heildarávinningurinn óljós
Árni hefur ágæta mynd af ávinningnum en heildarávinningurinn af landgræðsluaðgerðum er óljós. Þegar land blæs upp losnar kolefni en það er ekki haldið utan um það hversu mikið losnar, einungis hversu mikið er grætt upp. Landgræðsla er barátta, það getur tekið hundruð ára að byggja upp frjósaman jarðveg. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að endurheimt votlendis. Ekki liggur fyrir hversu mikið er framræst hér á landi en tölur Rannsóknarmiðstöðvar Landbúnaðarins benda til þess að mun meira sé framræst en endurheimt. Það er þó ákveðinn munur á framræslu og uppblæstri. Skurðir eru mannanna verk en uppblástur lands telst náttúrulegt ferli þrátt fyrir að menn geti vissulega stuðlað að honum.

Skip to content