Select Page

27.4.2018 / Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2018 afhent á ársfundi Landgræðslunnar á Grand Hótel í Reykjavík. Þetta var í 28. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru Hrunamannahreppur, Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði og Ólafur Arnalds doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.

Verðlaunahafar ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra og Árna Bragasyni, landgræðslustjóra.

Hrunamannahreppur
Það var árið 2012 sem Landgræðslan og Hrunamannahreppur hófu samstarf um þróunarverkefni um hvernig nýta mætti seyru til landgræðslu. Þetta þótti starfsmönnum Landgræðslunnar mjög spennandi þar sem þeir höfðu síðan 2010 verið að grúska í þessum málum og höfðu þá sett út tilraun til að skoða áhrif seyru á gróðurframvindu. Verkefnið með Hrunamönnum var í fyrstu skipulagt til þriggja ára og fólst í því að sveitarfélagið safnaði seyru úr rotþróm og dreifði henni á illa farið land á afrétti þeirra. Hlutverk Landgræðslunnar fólst í ráðgjöf og úttekt á árangri verkefnisins. Seyran var blönduð með vatni og síðan felld niður í jarðveginn, með þar til gerðum vélbúnaði.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri veitti landgræðsluverðlaununum viðtöku fyrir hönd frumkvöðlanna í Hrunamannahreppi.

Við gróðurmælingar þremur árum eftir að verkefnið hófst kom í ljós að gróðurþekjan hafði aukist úr 15 í 65% sem verður að teljast mjög góður árangur eftir einskiptis landgræðsluaðgerð. Það besta við þetta þróunarverkefni er að það dó ekki að þremur árum liðnum heldur öðlaðist framhaldslíf! Sveitarfélagið hóf þá samstarf við fjögur önnur sveitarfélög (Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp) um nýtingu seyru til uppgræðslu og hafa þau byggt upp sameiginlega aðstöðu fyrir verkefnið. Jafnframt hefur aðferðum verið breytt, þannig að seyran er ekki lengur felld ofan í jörðina, heldur er kalki blandað í hana og henni dreift á yfirborð landsins. Kölkunin drepur allar smitandi örverur og því er heimilt að dreifa henni á yfirborðið. Það er mjög gleðilegt að segja frá því að Ásahreppur hefur bæst inn í þetta samstarf, þannig að nú eru sveitarfélögin samtals sex í þessu verkefni – næstum 10% allra sveitarfélaga á Íslandi!   Með þessu verkefni hefur verið rudd braut til að nýta lífrænan úrgang sem fellur til í öllum sveitarfélögum til uppgræðslu. Þannig hefur efni sem áður var meðhöndlað sem úrgangur sem þyrfti að farga, verið breytt í verðmæta afurð. Þetta er mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög og slíkt frumkvöðlastarf er afar mikils virði.

Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði
Þau hjónin hófu búskap á jörðinni árið 1983 og reka þar sauðfjárbú með um 600 vetrarfóðruðum ám.
Árið 1995 markar ákveðin þáttaskil í uppgræðslu lands á Starmýri en þá tóku bændur á Starmýrarbæjum sig saman og hófu í félagi uppgræðslu mela með kerfisbundnum hætti undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið. Það uppgræðslustarf hefur haldist nær óslitið síðan þó að hin síðari ár hafi

Guðmundur og Sigrún áttu ekki heimangengt vegna anna en Eiríkur sonur þeirra veitti verðlaununum viðtöku fyrir þeirra hönd.

aðstæður breyst á nágrannabæjum og verkefnin einskorðast við elju og áhuga þeirra hjóna á Starmýri I.
Mest er um uppgræðslu á víðáttumiklum melum, þar sem mikið er af lausu efni, að uppistöðu úr líparíti, en einnig hefur verið lögð áhersla á að græða upp rofdíla og rofabörð. Mest hefur verið notaður tilbúinn áburður, oft með fræi, en auk þess hafa þau lagt melunum til talsvert magn lífræns áburðar. Mörg árin hefur allt tað sem til fellur á búinu verið notað til uppgræðslu erfiðustu melanna. Starfið ber allt merki mikillar natni, umhyggju fyrir landinu og metnaði í uppgræðslustarfinu.

Nú hafa allstór svæði á Starmýri verið grædd upp, svo eftir er tekið. Frumkvæði bænda á Starmýri I hefur verið hvatning til annarra landeigenda á svæðinu. Þau hjónin hafa rutt brautina fyrir eftirtektarverðan árangur í landgræðslu í sinni heimasveit. Þau hafa ekki hátt um sín verk og um Guðmund hefur verið sagt, og vitnað í Hallgrím Pétursson, „Lítillátur, ljúfur og kátur“.

 

 

 

Ólafur Arnalds
Ólafur Arnalds er doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á íslenskum jarðvegi um áratuga skeið, þar á meðal rannsóknir á eðli jarðvegsrofs og sandfoks, sem er óvíða meira en hér og hefur mótandi áhrif á vistkerfi landsins. Ólafur hefur

Umhverfisráðherra afhendir Ólafi verðlaunin.

einnig stundað rannsóknir á landgræðslu, kolefnisbindingu í jarðvegi, vistheimt og ástandi lands. Hann er í fagráði Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og kennir þar og á alþjóðlegum vettvangi.

Ólafur hefur verið mikilvirkur í ritstörfum og eftir hann liggja innlend og alþjóðleg fræðirit, auk fjölda ritrýndra greina. Hann hefur einnig verið ötull við að miðla fróðleik um íslenskan jarðveg og ástand vistkerfa til almennings, meðal annars með bókinni að Lesa og lækna landið, sem hann ritaði með konu sinni Dr. Ásu L. Aradóttur prófessor við LBHÍ. Þá heldur hann úti vefsíðunni moldin.net og kom á fót gagnagrunninum Nytjaland sem geymir lykilupplýsingar um allar bújarðir á Íslandi.

Á árunum 1991-1997 stýrði Ólafur kortlagningu jarðvegsrofs á Íslandi og gerð fræðslu- og kennsluefnis um sama efni. Fyrir það verkefni hlaut hann Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998. Í umsögn Norðurlandaráðs kom fram að verkefnið hafi stuðlað að aukinni þekkingu Íslendinga á jarðvegseyðingu, vakið skilning á því alvarlega ástandi sem ríkir vegna hennar, og kennt þjóðinni að bregðast við á uppbyggilegan hátt. Það hafi einnig orðið grundvöllur fyrir þátttöku Íslendinga í verkefnum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn jarðvegseyðingu. Til kosta verkefnisins var einnig talið að það hafi náð til stórs hóps og boðskapurinn sé þýðingarmikill í nútímanum, bæði á Íslandi og alþjóðlega.

Ólafur hefur verið afar virkur í umræðum um umhverfismál og ekki síst verndun íslenskrar moldar. Hann hefur hvergi dregið af sér í þeirri baráttu. Slíkir baráttumenn eru ekki alltaf allra og hljóta oft á tíðum meiri skammir en þakkir.

 

Skip to content