Select Page

6. nóvember 2015. Umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti landgræðsluverðlaunin við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti í gær. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Landgræðsluverðlaunin voru nú veitt í 25. skipti og hafa 88 aðilar hlotið þau síðan 1992. „Verðlaunin eiga að undirstrika þá grundvallarstefnu Landgræðslunnar að árangur í landgræðslustarfinu byggir á fórnfúsu starfi ótal þjóðfélagsþegna og verðlaununum er bæði ætlað að vera viðurkenning fyrir ötult starf og um leið – að hvetja fleiri til dáða,” sagði Sveinn Runólfsson þegar hann ávarpaði gesti í gær.

Eftirtaldir hlutu landgræðsluverðlaunin að þessu sinni: Ari Trausti Guðmundsson og Valdimar Leifsson, Grunnskólinn Hellu, Uppgræðslufélag Fljótshlíðar og Hvolsskóli. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. Smellið hér til að sjá myndir á Facebook

Nánar um verðlaunahafana.

Ari Trausti Guðmundsson og Valdimar Leifsson
Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur vann m.a. við kennslu, leiðsögn og ferðaþjónustu til 1987. Eftir það hefur hann verið sjálfstætt starfandi og sinnt ferðaþjónustu, ýmis konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrahaldi, kynningu á vísindastarfi og unnið að dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp, meðal annars haft umsjón með vinsælum sjónvarpsþáttum um nýsköpun, vísindi og fræði á Íslandi. Ari Trausti hefur stundað margvísleg ritstörf sem fjalla meðal annars um landkynningu, menningarmál og stjórnmál. Auk þess hefur hann unnið mikið að þýðingum. Eftir hann liggja yfir þrjátíu bækur um náttúruna, þar á meðal um eldvirkni, jökla, umhverfismál, ferða- og fjallamennsku, en auk þess sjö ljóðabækur, stuttsögusafn og fjórar skáldsögur. Hann hefur auk þess sett upp sýningar og söfn um umhverfismál.

Valdimar Leifsson hefur starfað við kvikmyndagerð síðan hann lauk meistaranámi við kvikmyndaskóla í Kaliforníu 1978. Hann hefur unnið bæði hjá Ríkisútvarpinu og Stöð2 – gert bíómyndir, heimildamyndir og sjónvarpsþætti. Árið 1990 stofnaði Valdimar fyrirtækið Lífsmynd kvikmyndagerð ehf. og hefur starfrækt það óslitið síðan.

Hann hefur framleitt og leikstýrt sjónvarpsþáttum um allt milli himins og jarðar, en aðallega náttúrulífsþætti sem hafa verið sýndir um allan heim. Þá hefur Valdimar gert fjölmargar heimildamyndir, sem allar hafa verið sýndar í Ríkissjónvarpinu og mörg verka hans hafa verið sýnd í erlendum sjónvarpsstöðvum. Listinn af myndum sem hann hefur ýmist kvikmyndað, leikstýrt eða framleitt er svo langur að mér dygðu vart nokkrar klukkustundir til að lesa. Valdimar heldur auk þess utan um og varðveitir nær allt kvikmyndefni sem Landgræðslan hefur látið gera frá upphafi, þar á meðal myndefni sem unnið var á vegum Myndbæjar hf. fyrr á árum.

Þeir félagarnir Ari Trausti Guðmundsson og Valdimar Leifsson hafa alla tíð haft mikinn áhuga á umhverfismálum og fjallað um þau í máli og myndum. Þeir hafa unnið saman í yfir 20 ár og gert fjölmarga sjónvarpsþætti, bæði staka þætti og þáttaraðir, þar sem fjallað hefur verið um landgræðslu og önnur umhverfismál. Þeir hafa gert þrjár kvikmyndir fyrir Landgræðsluna; Dimmuborgir, Lóan syngur ekki á örfoka landi og Þórsmörk – í skjóli jökla.

Grunnskólinn Hellu
Grunnskólinn á Hellu er þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar, Skólar á grænni grein, en það er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólinn vinnur m.a. að verkefni sem snýr að vistheimt á örfoka landi á Suðurlandi, en það er samstarfsverkefni Landverndar, Landgræðslu ríkisins, Hvolsskóla, Grunnskólans á Hellu og Þjórsárskóla (sem hlaut landgræðsluverðlaunin árið 2010). Verkefnið felur í sér fræðslu og þekkingarsköpun meðal nemenda, kennara og nærsamfélags skólanna, þar sem áhersla er lögð á þátttöku nemenda í rannsóknum og vistheimtaraðgerðum. Verkefnið er þannig liður í að efla þekkingu og getu Grænfána-skóla til að takast á við flókin umhverfismál.

Allir nemendur Grunnskólans á Hellu fá útikennslu í a.m.k. tveimur kennslustundum í hverri viku allan veturinn. Markmið útinámsins er m.a. að nemendur upplifi náttúruna á sem raunverulegastan hátt og læri að þekkja hana, skilja og skynja. Mikilvægi góðrar umgengni og virðing fyrir náttúrunni er stór hluti af náminu. Við skólann er sérstakt útikennslusvæði og þar hafa nemendur og starfsmenn gróðursett ýmsar trjátegundir og meðal annars gert tilraunir með ræktun eplatrjáa auk annarra aldintrjátegunda. Á hverju vori, allt frá árinu 1996, hafa trjáplöntur verið gróðursettar í Melaskógi, sem er skógræktarsvæði skólans, austan við flugvöllinn á Hellu. Ásýnd svæðisins hefur tekið miklum breytingum til hins betra og verkefnið gefið nemendum og starfsmönnum skólans mikið.

Skólinn hefur staðið fyrir föstum ferðum um afréttarlönd þar sem nemendum eru kynntar þær náttúruperlur sem eru á hálendinu næst heimabyggðinni og ekki síður til að kenna þeim að umgangast hálendið með náttúruvernd að leiðarljósi. Í þessum ferðum hefur verið unnið að ýmsum verkefnum, meðal annars uppgræðslu hjólfara og rofabarða.

Bæjarhellan er nýtt verkefni sem skólinn stendur að, þar sem búið verður til sjálfbært samfélag. Nemendur vinna á starfsstöðvum þar sem m.a. verða framleiddar vörur úr endurnýtanlegu efni. Vörurnar verða síðan seldar á markaðsdegi í skólanum.

Hugmyndin er að 16. september ár hvert, verði Grænfánadagur í Grunnskólanum á Hellu. Allir bekkir skólans taka þá þátt í verkefnum sem tengjast Grænfánanum, en um er að ræða stutt þematengd verkefni. Sem dæmi um verkefni eru stuttmyndir um áhrif plasts á umhverfið, umhverfismat í fyrirtækjum sveitarfélagsins og að semja umhverfislag.

Fjölþætt umhverfisverndarstarf nemenda og kennara Grunnskólans á Hellu er mikilvægt framlag til landgræðslu á svæðinu og til að efla skilning og þátttöku uppvaxandi kynslóða á þýðingu landgræðslu.

Uppgræðslufélag Fljótshlíðar
Unnið hefur verið að uppgræðslu og gróðurvernd í Fljótshlíð um langan tíma en formlegt upphaf starfsins má rekja til ársins 1971 en þá var ákveðið á hreppsnefndarfundi þann 12. janúar, að frumkvæði séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar, að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að vinna tillögur um ræktunar- og beitarmál sveitarinnar. Í nefndinni sátu Kristinn Jónsson, tilraunastjóri á Sámsstöðum, séra Sváfnir Sveinbjarnarson, sóknarprestur á Breiðabólsstað og Böðvar Gíslason bóndi á Butru. Þeir lögðu fram tillögur sínar og ákveðið var að gerðar yrðu tilraunir til uppgræðslu á aurnum við Þórólfsfell, á svæði sem síðar hefur verið þekkt sem Grasgarðurinn, og að hreppurinn myndi leggja 200.000 kr. til áburðardreifingar gegn jöfnu framlagi Landgræðslunnar. Þá var ákveðið að lausaganga hrossa á Fljótshlíðarafrétti yrði stöðvuð og var girt afréttargirðing vegna þess. Vaskir Fljótshlíðingar fóru tröllaveg inn á Einhyrningsflatir og ruddu þar flugbraut vorið 1971 og var 36 tonnum áburði dreift á afréttinn þá um sumarið.

Síðan þá hefur verið unnið óslitið að uppgræðslu á Fljótshlíðarafrétti. Fyrstu árin var ekki akvegur inn á afréttinn og því var áburði og fræi dreift með flugvélum Landgræðslunnar frá flugbrautum í Grasgarðinum og Einhyrningsflötum og hélst það fyrirkomulag til og með árinu 1989 en árið eftir tóku bændur í Fljótshlíð við áburðardreifingunni. Helstu svæðin sem unnið hefur verið á eru Grasgarðurinn við Þórólfsfell og Einhyrningsflatir en eftir því sem árin hafa liðið hafa bæst við svæði s.s. Tröllagjá og Gilsáraurar og hefur nú verið unnið að uppgræðslu í hátt á 1.000 hekturum á Fljótshlíðarafrétti.

Ávallt hefur verið mikill stuðningur innan sveitar við verkefnið. Fljótshlíðarhreppur og síðar Rangárþing eystra hafa frá upphafi stutt dyggilega við það og bændur í sveitinni hafa sótt í að komast í áburðardreifinguna. Þá hefur frá upphafi verið gott samstarf þessara aðila við Landgræðsluna um uppgræðsluna og gróðurvernd innan sveitarfélagsins, enda löng hefð fyrir jarðvegs- og gróðurvernd meðal bænda í Fljótshlíð.

Starf Fljótshlíðinga við uppgræðslu og gróðurvernd hefur frá upphafi einkennst af samvinnuhugsun, dugnaði og áhuga.

Hvolsskóli
Hvolsskóli hefur lengi unnið að ýmsum verkefnum á sviði umhverfismála og er þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar, Skólar á grænni grein. Skólinn er, eins og Grunnskólinn Hellu og Þjórsárskóli, í samstarfi við Landvernd og Landgræðslu ríkisins um verkefni sem snýr að vistheimt á örfoka landi á Suðurlandi. Verkefnið felur í sér fræðslu og þekkingarsköpun meðal nemenda, kennara og nærsamfélags skólanna, þar sem áhersla er lögð á þátttöku nemenda í rannsóknum og vistheimtaraðgerðum. Verkefnið er þannig liður í að efla þekkingu og getu Grænfánaskóla til að takast á við flókin umhverfismál.

Nemendur í 7. bekk Hvolsskóla hafa frá árinu 2010 mælt hop Sólheimajökuls. Nemendur fara upp að jöklinum einu sinni á ári búnir mælitækjum til að mæla hopið og myndavél til að skrá breytingar á ásýnd jökulsins. Jökullinn hefur samtals hopað um tæplega 200 metra frá upphafi mælinga og hefur myndast lón framan við jökulinn sem er rúmlega 40 metra djúpt. Hér er um að ræða afar metnaðarfullt verkefni þar sem nemendur fá að kynnast afleiðingum loftslagsbreytinga af eigin raun.

Skólinn er í samstarfi við Skógræktina á Tumastöðum og þangað fara nemendur í nokkrum bekkjum og fræðast um skógrækt og trjáplöntun.
Unnið hefur verið að því s.l. tvö ár að koma upp útikennslustofu við skólann. Þar hefur verið byggt lítið útikennsluhús auk þess sem trjám hefur verið plantað á svæðinu. Tilgangurinn er að kennarar í öllum fögum sinni hluta af kennslu sinni utan kennslustofunnar.

Allir árgangar Hvolsskóla fara í fjallgöngu einu sinni á ári. Markmiðið er að fræða nemendur um umhverfi, náttúru og heilbrigða lífshætti. Verkefnið kallast tíutindaganga en í lok skólagöngunnar hafa nemendur gengið á tíu tinda samtals.

Nú er unnið er að því að koma upp hænsnakofa sem er liður í sjálfbærniverkefni skólans. Hænurnar verða fóðraðar á lífrænum úrgangi sem fellur til og í staðinn fá nemendur egg. Einnig höfðar verkefnið til ábyrgðar nemenda þar sem þeir taka þátt í hirðingu hænsnanna.

Á síðasta skólaári var umhverfisblaðið Laufblaðið gefið út. Nemendur umhverfisnefndar unnu blaðið í samstarfi við aðra nemendur skólans og var því dreift á öll heimili, fyrirtæki og stofnanir á Hvolsvelli. Blaðið er liður í því að kynna umhverfisstefnu skólans út á við.

Hvolsskóli, eins og Grunnskólinn Hellu, hefur unnið að metnaðarfullum verkefnum sem snúa að sjálfbærni og umhverfismálum.

Skip to content